146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:15]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kærlega fyrir framsögu hennar sem og umræður hér í þingsal. Við ræðum hér rammaáætlun, þ.e. þann ramma sem settur hefur verið í kringum þessi mál hér á landi og snýst um að meta faglega möguleika á vernd og nýtingu með sjálfbærni í huga, þar sem meðal annars er horft til þess að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu orkuhugmynda. Nú skal viðurkennast að allur rammi sem settur er upp, öll svona kerfi, er mannanna verk og þar innan er ákveðið svigrúm, ákveðinn sveigjanleiki fyrir huglægt mat, við getum alltaf deilt um hvert innbyrðis vægi ólíkra þátta eigi að vera eða það hvernig hver og einn þáttur er metinn. Ef maður ber saman ólík kerfi og ólíkar leiðir til að taka ákvarðanir held ég þó að með svona ramma sé alla vega erfiðara að gera mikla vitleysu en ef enginn slíkur rammi er fyrir hendi.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggur fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eins og ráðherra nefndi er vinna þeirrar áætlunar viðkvæm á mörgu stigi, en að mínu mati hefur verið staðið faglega að því ferli sem þessi rammaáætlun er. Það á einnig við um vinnu verkefnisstjórnar og faghópa. Í lögunum segir að í rammaáætlun skuli, í samræmi við markmið fyrrnefndra laga, leggja mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndar. Þetta skiptir máli því að nýting getur falist í náttúruvernd. Við erum sífellt að átta okkur betur á því, t.d. í ferðaþjónustu, landbúnaði, sjávarútvegi o.s.frv., þótt svo, eins og fram hefur komið, þeirri nýtingu séu einnig ákveðin takmörk sett.

Eins og fram kom í máli ráðherra er gert ráð fyrir allt að 1.400 MW í nýtingarflokki í þessari rammaáætlunartillögu. Það er um helmingur þeirrar orku sem þegar er í kerfinu í dag þannig að möguleikar til nýtingar eru sannarlega fyrir hendi, þó að auðvitað sé það þannig að þessir virkjunarkostir muni ekki allir rísa á næsta ári og verði ráðist í einhvern þeirra er engu að síður mikið ferli fram undan. En þegar á heildina er litið held ég að hér sé um að ræða ágætismálamiðlun milli nýtingar og friðunar. Hringl með kosti í báðar áttir myndi hafa þau áhrif að það þætti í lagi að hringla með það í framtíðinni. Þá vitum við ekki hvað myndi gerast. Næsti ráðherra og næsta þing gæti breytt öllu og fært það hingað og þangað með vísan í þau fordæmi sem hér hafa skapast.

Óháð því hvaða skoðanir menn hafa á hinum og þessum kostum og hinum og þessum virkjunarframkvæmdum sem hér er tekin afstaða til tek ég fram að ég hef persónulega tiltölulega litlar skoðanir á þeim. Þá finnst mér að með því að leggja fram tillögu verkefnisstjórnar óbreytta sé ráðherrann að styrkja þá umgjörð sem hér hefur verið sköpuð. Ég styð því þetta mál.