146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þetta er að verða að einhverju leyti eins og lítil útgáfa af fundi umhverfis- og samgöngunefndar, hér tala nefndarmenn saman í ræðupúlti. Mig langar að spyrja hv. þm. Pawel Bartoszek út í orð hans um að ferli rammaáætlunar hafi verið faglegt og vinnubrögðin fagleg í ljósi ummæla formanns verkefnisstjórnar við okkur á nefndarfundi, og ég er búinn að fá heimild til að vitna í þau, sem sagði að sú flýtimeðferð og það inngrip sem hefði verið í ferlið á síðasta kjörtímabili með að meta sérstaklega kosti hefði í raun ekki verið í anda laganna, það hefði verið frávik frá lögunum og farið gegn anda laganna á sínum tíma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvað hann telur um þá staðreynd, að svo hafi verið. Í framhaldi af því vil ég spyrja, þar sem sú tillaga sem nú er lögð fram byggir að stórum hluta til á akkúrat þeirri vinnu sem farið var í í flýtiferlinu sem verkefnisstjóri og fleiri hafa sagt að hafi stangast á við lög, hvort hv. þingmaður telji að sú vinna hafi verið nægjanleg eða hvort það hefði kannski verið ráð, til að sýna enn faglegri vinnubrögð og fylgja enn betur anda laganna, að skoða eitthvað af þeim kostum nánar, ekki með tímasvipuna á bakinu eins og reyndin var á síðasta kjörtímabili.