146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:24]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Nú er það þannig eftir því sem ég best veit að tekið er á ýmsum af þessum þáttum betur í næsta skrefi, síðan verði farið í tiltekin verkefni. Það er þá partur af heildarumhverfismati ferlisins að meta áhrif á laxastofna eða aðra umhverfisþætti.

Til þess að svara, ef ég get gefið mína heildarsýn á þessi mál, vegna þess að það er nú það sem 1. umr. um þingmál á að ganga út á, þá ímynda ég mér að það séu sannarlega til einhver varnaðarorð í þá átt að ekki sé litið nægilega til verndarsjónarmiða eða einhverra sjónarmiða sem lúta að vernd náttúrunnar. Ég ímynda mér að sama skapi að það vanti ekki þau sjónarmið sem eru í hina áttina, að það sé ekki tekið nægilega mikið tillit til þess að nýta orkuna í þágu atvinnuuppbyggingar eða með einhverjum þannig hætti. Mín afstaða í þessu máli myndi vera ákveðin miðjuafstaða með líklegast örlitlum halla inn í umhverfisverndunarpartinn og ég held að þessi áætlun standi algjörlega undir nafni til þess að geta uppfyllt þær væntingar. Þess vegna er ég ánægður með áætlunina eins og hún liggur fyrir.

Varðandi fyrri part fyrirspurnar verð ég einfaldlega að játa að ég þyrfti að fara örlítið betur yfir þau ummæli og það sem átti sér stað og forsöguna til að geta mótað mér afstöðu til þess. Ég treysti mér ekki alveg til þess að segja hvað áhrif afstaða sem kynni að skýrast í framtíðinni kann að hafa á afstöðu mína til þessa máls.