146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:26]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við rammaáætlun og ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Þetta er gríðarlega mikilvægt plagg sem við horfum á hér og ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga þegar við tökum tillöguna til umræðu hversu langt við höfum í raun og veru komist í ferlinu. Hér er tæki sem við höfum verið að þróa á undanförnum árum til þess að ná betra jafnvægi milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða. Við stöndum frammi fyrir tillögu að rammaáætlun sem er með mjög metnaðarfull áform þegar kemur að vernd, en líka alveg ágætisáform þegar kemur að nýtingu. Það er ástæða til þess að velta upp nokkrum atriðum um hvernig við nýtum þetta til áframhaldandi vinnu.

Þegar takast á sjónarmið verndar og nýtingar er kannski aldrei svo að niðurstaðan verði eitthvað sem allir eru sáttir við. Ég hefði viljað sjá í þessu ferli, sem myndi færa hlutina til betri vegar, að við reyndum að ná betur utan um þjóðhagslega ávinninginn af nýtingu. Ég tel að við þurfum að horfa á það við gerð næstu rammaáætlunar. Það er nauðsynlegt að við gerum það til að við getum vegið og metið saman kosti verndar og nýtingar. Ég tek hins vegar fullkomlega gild þau rök verkefnisstjórnarinnar að ekki hafi unnist tími til að fara nægilega djúpt ofan í þá umræðu að þessu sinni. Það er ekki til þess fallið að hafa áhrif á afstöðu mína til tillögunnar sem hér liggur fyrir, en ég held að við þurfum að halda áfram og líta á rammaáætlun sem tæki sem við erum með í stöðugri þróun um það hvernig við getum gert betur. Það er einmitt mjög mikilvægt að hafa það í huga þegar við skoðum rammaáætlun hvernig hún hefur verið að þróast og mótast í áranna rás, vonandi til betri vegar þegar við horfum t.d. á umræðuna í þinginu nú við fyrri umr., mun átakaminni umræða en oft áður. Mér finnst hún mun yfirvegaðri og betri. Áætlunin er fyrst og fremst tæki fyrir þingið til að vega og meta kosti okkar í stöðunni frá einum tíma til annars. Tíminn breytist, afstaða okkar flestra hér inni hefur örugglega þróast verulega mikið frá því að rammaáætlun kom fyrst til umfjöllunar Alþingis, ef við horfum á þá tækniþróun sem orðið hefur í orkunýtingu sem er fyrirsjáanleg, tækifæri til annarrar nýtingar sem orðið hafa til og mótast frá því að við hófum þessa umræðu fyrst, í ferðaþjónustu — annað verðgildi náttúrunnar út frá annars konar nýtingu en þegar kemur að virkjunum. Það hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum. Allt skiptir þetta gríðarlega miklu máli þegar við horfum á þá kosti sem þarna eru í stöðunni, bæði frá verndarsjónarmiði og nýtingarsjónarmiði.

Ég held að þegar við horfum til þess umfangs nýtingartillagna sem hér er að finna verðum við að hafa það til hliðsjónar hvernig áherslur hafa breyst. Það er augljóst í mínum huga að tími stóriðjunýtingar af því tagi sem við horfðum hér til, t.d. varðandi Kárahnjúkavirkjun, er liðinn. Við munum ekki byggja annað slíkt stóriðjuver frá grunni með slíkri orku. Ég styð heils hugar þá áherslu sem Landsvirkjun hefur verið með í stefnu sinni, að horfa til smærri verkefna, fjölþættari verkefna, verkefna sem gefa hærra verð en við höfum átt að venjast. Það er í takt við þau tækifæri sem skapast hafa í umhverfi okkar á undanförnum árum. Þar horfum við til þátta eins og sæstrengs, gagnavera, smærri iðjuvera af ýmsu tagi. En það sem skiptir kannski ekki hvað síst máli eru tækifæri sem við eigum í orkuskiptum í samgöngum, iðnaði og sjávarútvegi, að því marki sem við getum. Þar eigum við mörg gríðarlega áhugaverð tækifæri sem við þurfum að nýta og þurfum vissulega að hafa þá nýtingarkosti til.

Ég tel 1.400 megavött fullkomlega duga okkur í þeim áformum fram á veginn. Við þurfum hins vegar líka að horfa til annarra þátta eftir því sem möguleiki er varðandi bætt flutningsnet og bætta nýtingu á þeirri raforku sem framleidd er, djúpborunarverkefni, jarðvarma og hvaða áhrif það mun hafa á nýtingarmöguleika okkar til framtíðar og síðast en ekki síst vindorku- og sjávarfallavirkjanir sem skapa hér mjög áhugaverða kosti til framtíðar, kosti sem hafa allt annars konar umhverfisáhrif en við höfum átt að venjast þegar horft er t.d. til vatnsaflsvirkjana.

Þó að ég teldi heppilegt að menn hefðu náð lengra í umræðunni um þjóðhagslegan ávinning breytir það því ekki að hér er komin fram mjög álitleg rammaáætlun sem ég styð heils hugar.

Þingið tekur núna við málinu. Ég vona að umræðan og meðferð þingsins verði jafn uppbyggileg og málefnaleg og hún hefur verið hér í fyrri umr. Mér finnst það lofa góðu um framhaldið. Ég held að hér geti skapast víðtæk sátt um rammaáætlun og held að það sé engin ástæða til að ætla annað. Það er auðvitað þingsins að taka ábyrgð á verkefninu. Það er þingsins að kveða upp úr um endanlega niðurstöðu, og ég treysti því orðum þingmanna við þessa fyrri umr., að sú niðurstaða geti orðið mjög hagfelld sem við öll ættum að geta unað vel við og verið stolt af.

Fleiri ætla ég ekki að hafa orð mín og þakka fyrir.