146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga um rammaáætlun. Tillagan kemur fram alveg eins og hún var þegar við ræddum hana í september á síðasta ári. Hæstv. ráðherra hefur kosið að leggja hann fram óbreytta. Ég tel að rammaáætlun hafi sýnt sig og sannað og sé mjög gott verkfæri til að reyna að ná sátt um vernd og nýtingu orkukosta og landsvæða. Við höfum ekkert betra verkfæri en þetta og erum auðvitað líka að prófa okkur áfram með að styrkja þá verkferla sem eru í gangi varðandi það að taka fleiri sjónarmið undir faghópana, eins og samfélagsleg sjónarmið. Þjóðhagsleg hagkvæmni hefur verið líka rædd, og síðasti hv. ræðumaður nefndi það, og hvernig við getum sett verðmiða á náttúruna sem slíka, verðmæti hennar. Það er mjög huglægt og erfitt að setja þann verðmiða á, en við verðum líka að þora það. Við þekkjum það úr umræðunni að yfir 80% þeirra ferðamanna sem koma til Íslands koma vegna náttúru landsins og náttúra landsins ein og sér er gífurlega þjóðhagslega hagkvæm, líka fyrir augað. Því þarf að halda til haga.

Mér finnst gott að heyra í þessari umræðu að heilt yfir eru menn sammála um að þetta verkferli rammaáætlunar hafi sýnt sig og sannað að undanskildum einum hv. ræðumanni, Gunnari Braga Sveinssyni, sem lýsti því yfir að þetta verkfæri væri handónýtt þótt hann gæti ekki bent á neitt annað betra sem ætti að koma í staðinn. Ég lít þannig á að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé ákveðin málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða en samt byggð á faglegum grunni, eins langt og hægt er að komast í þeim efnum.

Forsaga þessa máls er sú að ekki hafa verið til nægir fjármunir til að setja vinnu faghópanna í gang nógu snemma. Þetta var akkíllesarhæll á sínum tíma, en nú er það komið í höfn. Maður bindur vonir við að næsta áfanga verði hrint af stað sem fyrst og þá fari af stað öflug vinna í áframhaldandi flokkun landsvæða.

Fyrir mitt leyti hef ég ákveðnar áhyggjur af þeim hluta sem er í nýtingarflokki, þ.e. neðri hluti Þjórsár, og tel að það sé mál sem hefði mátt gefa lengri tíma. Tíminn mun vinna með því og sýna fram á hvers virði það er að fara ekki út í virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Við þekkjum sjónarmið varðandi vernd íslenska laxins þarna og að þær mótvægisaðgerðir sem er lagt til að verði farið í dugi ekki til, ekkert hafi sýnt fram á að þær dugi, og að það hafi áhrif á lífríki Þjórsár ef ákveðið verður að virkja ákveðið tilraunaverkefni. Það er auðvitað ekki gott.

Ég vil aðeins, með leyfi forseta, vitna í umsögn Veiðifélags Þjórsár sem kom árið 2015 til atvinnuveganefndar, sem var með málið á sinni könnu þá. Hér segir:

„Hugmyndir Landsvirkjunar um mótvægisaðgerðir vegna virkjananna þriggja þurfa að vera mun ítarlegri og hver aðgerð verði sérstaklega rökstudd í greinargerð um framkvæmd með tilvísun í viðeigandi rannsóknargögn og heimildir. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið af starfsmönnum Veiðimálastofnunar varðandi virkjanir eru mikilvægar grunnforsendur en ljóst er að meiri rannsókna og áætlana er þörf á hrygningarsvæðum, göngumöguleikum seiða, áhrifa rennslisbreytinga og á göngutímum lax og sjóbirtings.“

Þetta eru áhyggjur sem ég held að verði að taka til greina og við megum ekki rasa um ráð fram í þessum efnum. Það kemur líka fram í þingsályktunartillögunni varðandi rökstuðning við þessar tvær virkjanir, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, að óvissu um virkni seiðafleytna og um áhrif vatnsmagns og rennslisbreytinga á gönguleiðir, hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfisks verður ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á. Eðlilegt sé að um hana verði fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar.

Þarna kemur líka fram ákveðinn ásteytingarsteinn sem hefur verið í umfjöllun um rammaáætlun, sem er hve langt verkefnisstjórn á að ganga varðandi umhverfismat og varðandi áhrif af mótvægisáhrifum, eins og varðandi laxinn, hvort það eigi að vera á fyrri stigum í vinnu verkefnisstjórnar og faghópa eða hvort það eigi að vera umhverfismat framkvæmda við leyfisveitingu. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Við sem teljumst til verndarsinna og viljum gæta varúðarsjónarmiða teljum að fyrr í ferlinu þurfi að fara fram ítarlegt mat á hvaða áhættu menn eru að taka varðandi lífríki Þjórsár og vernd laxastofnsins, því að það er mikið undir í þeim efnum.

Einnig vil ég ræða aðeins um samfélagsleg áhrif. Það hefur verið nefnt að hópur ungs fólks á Suðurlandi, Gjálp, atvinnuþróunarfélag, hafi miklar áhyggjur af því ef neðri hluti Þjórsár verður settur í nýtingu og virkjunarframkvæmdir fari í gang. Á síðasta kjörtímabili fengum við í atvinnuveganefnd til okkar margt ungt fólk af þessu svæði sem hafði miklar hugmyndir um annars konar uppbyggingu en stóriðju og virkjun, virkjunarframkvæmdir, á svæðinu, að það væri undirstaða þess að ungt fólk vildi byggja sig upp til framtíðar á þessu svæði og setjast þar að neðri hluti Þjórsár yrði ekki virkjaður og Þjórsá gefinn griður. Ég held að við þurfum að horfa til þess að tíminn vinnur líka með svona sjónarmiðum, hvað er mikils virði í dag, og virðisaukning verður kannski eftir nokkur ár. Þar held ég að Þjórsá falli hiklaust undir þau sjónarmið að við eigum að ganga mjög varlega um dyr, fara varlega í að virkja og nýta neðri hluta Þjórsár. Ég held að við þurfum að láta skoða þetta vel í umhverfis- og samgöngunefnd og vænti þess að við í atvinnuveganefnd fáum líka málið til umsagnar.

Mér fannst gott að heyra það sem kom fram í umræðu áðan að þótt skylt sé að leggja fram tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða á fjögurra ára fresti sé ekki skylt að afgreiða hana sem slíka. Þingið hefur það í hendi sér hvernig það metur þetta. Ég tel að þingið eigi að horfa svolítið vel ofan í ákveðna þætti sem eru undir nýtingarflokki og flýta sér hægt í þeim efnum, því að það hefur alltaf verið þannig að tíminn vinnur með náttúruvernd og sjónarmið breytast og sjónarmið í náttúruvernd hafa gjörbreyst á Íslandi á síðustu 15 árum. Ég tel að flokkur eins og Vinstri grænir hafi algjörlega farið fremst í flokki í þeim efnum sem hafi svo skilað sér inn í harðsvíruðustu virkjunarflokka líkt og Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.