146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki rétt að huga að þessu máli sérstaklega, þ.e. þeirri vinnu sem væntanleg er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hvað undirbúning einhvers konar miðhálendisþjóðgarðs varðar og samspil þeirra áforma við nákvæmlega þennan virkjunarkost hér. Ég held að það sé afar mikilvægt og ekki síst kannski í ljósi þess að virkjunin er óafturkræf þegar um er að ræða vatnsafl eða jarðvarma, ólíkt því sem er með vindorkuna eins og hv. þingmaður vék að áðan. Það er að því leytinu til afdrifaríkara að setja virkjunarkosti í nýtingarflokk en í biðflokk eða verndarflokk. Ég spyr því hv. þingmann hvort hún telji ekki ástæðu til að taka þessi sjónarmið sérstaklega til skoðunar við úrvinnslu tillögunnar, þ.e. samspilið við þennan þátt.