146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru nú kannski frekar ábendingar en andsvör. Það er búið að ræða hér dreifikerfi, vindorku og fleira. Dreifikerfið skiptir verulegu máli en það hefur ekki úrslitaáhrif á umfjöllun um rammaáætlun. Við getum útvegað hundruð megavatta án nýrra virkjana. Auðvitað þarf að dreifa því rafafli um landið og eins þarf að vera samtenging milli austur- og vestursvæðisins. Þetta kallar vissulega á styrkt dreifikerfi og um það verðum við að fjalla.

Vindorkan snýst að mínu mati fyrst og fremst um vindlundi, ekki stakar vindmyllur hingað og þangað um landið eins og við sjáum t.d. í Danmörku. Við erum að tala um jafnvel 50–100 vindmyllur á stað eins og Blöndulund sem er vestan við Hofsjökul á svæði sem er mjög langt frá vegum og yfir höfuð engin umferð um. Vistspor vindmylla hefur verið mjög til umræðu þar sem mikið er um vindmyllur. Menn vilja margir meina að vistspor vindmylla sem eru framleiddar og keyrðar og þeim síðan eytt sé miklu stærra en menn vilja vera láta. Við megum ekki gleyma þessu. Þetta hefur kannski ekki heldur úrslitaáhrif. En afturkræfnin er klár og það er mjög mikilvægt að þetta vistspor sé tekið inn í allar þær pælingar. En sama með þetta eins og dreifikerfið, vindorka verður að mínu mati aldrei stór þáttur í orkubúskap á Íslandi.

Loks aðeins um hlutdeild í loftslagsmálum. Það er talað um að rammaáætlun skipti þar miklu máli. Það er bæði og. Þetta skiptir auðvitað máli varðandi raforku í orkuskipti, varðandi raforku til iðjuvera sem eru að leita að grænni orku, þetta gæti skipt máli ef menn vilja sæstrenginn, en þá bendi ég ykkur á að þúsund megavatta sæstrengur dekkar 3% af orkuþörf Bretlands. Ég held að hvernig sem við lítum á það sé sæstrengurinn ekki heldur (Forseti hringir.) stórt mál í þessari rammaáætlun. Meginatriðið í loftslagsmálum er minni losun og meiri binding.