146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um friðlýsingarnar. Þetta snýst auðvitað ekki bara um mannafla og fjármagn. Ég veit að hv. þingmaður veit það. Helst er það samráð og samtal við sveitarfélög, landeigendur og aðra þar sem hnífurinn stendur í kúnni, svo það sé sagt. Það tekur tíma. En enn og aftur, ég legg áherslu á þessar friðlýsingar.

Hér var nefndur hv. þm. Teitur Björn Einarsson og það sem hann sagði. Ég hlustaði einmitt grannt á ræðu hans. Ég heyrði líka vel að honum fannst, ég skrifaði þetta niður, fólk túlka orð sín mjög frjálslega, eins og hann sagði. Ég vil ekki vera að gera honum upp þá skoðun að hann vilji breyta þessari tillögu efnislega. Ég óska eftir því að aðrir geri það ekki heldur.

Miðhálendisþjóðgarður og Skrokkalda: Eins og við vitum er stefnt að því að vernda miðhálendið. Það var tekin pólitísk afstaða til þess í stjórnarsáttmála, þó að orðið miðhálendisþjóðgarður hafi ekki staðið þar liggur það dálítið í orðanna hljóðan. En það er annað mál. Það er það sem ég sé fyrir mér.

Það eru einhverjar virkjanir samt sem áður inni á hálendinu. Miðhálendisþjóðgarður mun þýða einhverja nýtingu, starfsemi, en ég hefði viljað sjá að þar væri ekki virkjað meira. Ég segi það alveg eins og er. Ég vil ekki sjá að svonefnd Kjalölduveita t.d. fari í gagnið, því að hún liggur þarna alveg hjá Þjórsárverum. Þetta er mjög mikilvægt. En þetta er niðurstaða verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Ég felli mig við hana út af því, eins og ég hef sagt, að ef málamiðlun væri þannig að einhver (Forseti hringir.) sem kæmi að henni væri fullkomlega sáttur væri það skrýtin málamiðlun.