146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:41]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um það mál sem nú um ræðir, þ.e. tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Umræðan í dag hefur verið málefnaleg og upplýsandi. Ég verð líka að hrósa hæstv. ráðherra Björt Ólafsdóttur fyrir að hafa verið viðstödd umræðuna allan tímann og tekið virkan þátt í henni. Það er alveg til fyrirmyndar.

Að mínu mati er aðferðafræði rammaáætlunar besta tækið sem við höfum til að meta virkjunarkosti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi í ræðu sinni fyrr í dag að hann teldi að aðferðafræðin væri fullreynd og nú yrðum við að fara aðrar leiðir. Það er hins vegar mín skoðun að enn sem komið höfum við ekki betra tæki en rammaáætlun til að meta nýtingu og vernd virkjunarkosta. Að þessu leyti erum við, ég og flokksfélagi minn, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, ósammála. Ég tek hins vegar undir áhyggjur hans af vinnulaginu og hef ákveðnar efasemdir um að við förum eftir lögum að fullu þar sem mat á samfélagslegum áhrifum og þjóðhagslegum áhrifum hefur ekki verið tekið inn í jöfnuna. Því óska ég eftir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki þau atriði sérstaklega til skoðunar í sinni vinnu. Erum við ekki með tæki til að mæla ákveðna þætti, eins og hæstv. ráðherra nefndi í andsvari sínu fyrr í dag við þessari gagnrýni, sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun? Ef ekki, getum við búið til þau mælitæki eða þurfum við að breyta lögum um rammaáætlun? Mér finnst alla vega mikilvægt að þegar við erum með lög þá höfum við getu til þess að fara eftir þeim að fullu og ef ekki þá þurfum við að vera með opinn huga og mögulega aðlaga lögin, gera einhverjar breytingar. Við þurfum bara að skoða það. Ég treysti hv. nefnd fullkomlega til þess.

Við áttum hér afar góðar umræður í síðastliðinni viku um loftslagsmál. Ég hef líka áhuga á að skoða sérstaklega hvort við þyrftum að taka þann þátt inn í lög um rammaáætlun. Loftslagsmálin eiga eftir að spila enn stærra hlutverk í tilveru okkar en þau gera nú. Mér þykir því skynsamlegt að hafa þau mál til hliðsjónar þegar við ræðum vernd og virkjanir.

Ég velti líka fyrir mér hvort lögin séu óskýr að einhverju leyti þannig að það sé ekki nógu skýrt hvað skuli unnið og með hvaða hætti. Maður hefur heyrt þá gagnrýni í gegnum tíðina að þetta sé að einhverju leyti loðið. Ég þekki það ekki. En mig langar til að nefna það hér, það kemur reyndar fram í greinargerð málsins á bls. 6, að faghópar 1 og 2, svo ég taki nú dæmi, sem voru skipaðir þann 16. apríl 2014 hafi nýtt tímann til að ræða aðferðafræði og gera úttekt á stöðu þekkingar og því hvaða rannsóknir skorti helst á þeim svæðum sem miklar líkur væru á að yrðu til skoðunar þar sem ekki lá fyrir hvaða virkjunarkostir yrðu teknir til skoðunar. Þannig nýttu faghóparnir tímann. Það er því ekki hægt að segja að menn hafi ekki vandað til verka. Að mínu mati hefur allt það fólk sem hefur komið að gerð rammaáætlunar, þá á ég við faghópa og alla þá fagmenn sem að þessu hafa komið, lagt sig fram. Ég trúi því. Það hafa allir gert sitt besta, en alltaf má betur gera. Við eigum að vera vakandi yfir því hvort við getum bætt vinnubrögðin.

Það er rétt eins og fram hefur komið í máli nokkurra þingmanna hér í dag að styr hefur staðið um rammaáætlun frá því að lögin voru samþykkt. Mér þykir það mjög leiðinlegt þar sem lagt var upp í þessa vegferð í þverpólitískri sátt á sínum tíma og við bundum öll vonir við að nú loksins gætum við unnið að skipulagi virkjana og verndar á faglegum grunni. Ég vona því heitt og innilega að nú séum við komin á betri stað. Vissulega eru menn ekki sammála um að þær tillögur sem birtast í þingsályktunartillögunni sem nú er lögð fram séu allar jafn góðar. Eðlilega hafa menn ólíkar skoðanir á því. Ég ætla ekki að leggja mat á þá virkjunarkosti sem hér eru taldir og hvernig þeir eru flokkaðir. Ég treysti því hins vegar að hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni vanda til verka við meðferð málsins. Ég hlakka til að lesa þær umsagnir sem munu berast.

Hæstv. forseti. Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um að við ættum að skoða hvort vindorkuvirkjanir eigi heima innan rammans. Það eru ákveðnir kostir sem fylgja slíkum virkjunum eins og hv. þingmaður nefndi, t.d. er um að ræða afturkræfar framkvæmdir sem er jákvætt. Við höfum nú þegar stigið okkar fyrstu skref í nýtingu vindorku og þar eru vissulega ákveðnir framtíðarmöguleikar sem við þurfum að vera opin fyrir. En ég tel vissara að vindorkuvirkjanir séu skoðaðar í heildarsamhengI við aðra virkjunarkosti og enn þá mikilvægara er að sátt skapist um slíkar virkjanir eins og aðrar. Slík sátt næst aðeins ef fyrir liggja fagleg rök og upplýst umræða.

Annað sem ég hjó eftir í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur var dreifing raforku og raforkuöryggi. Hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir kom einnig inn á þá hluti í máli sínu fyrr í dag. Við þurfum svo sannarlega að bæta flutningskerfi raforkunnar og tryggja að hún dreifist jafnt um allt land. Það er mikilvægt verkefni sem við verðum að leggja aukna áherslu á.

Annað atriði er orkuöryggi. Eins og staðan er í dag þá er það ekki í nógu góðu standi. Ég hef t.d. heimildir fyrir því að óörugg orka standi ýmsum fyrirtækjum fyrir þrifum t.d. á Austurlandi og ætla nú ekki að fara út í umræðuna hér um þrífösun á rafmagni. Það er annar handleggur. Við þurfum að taka bara sérstaka umræðu um það fljótlega. En rafmagnsmálin eru ekki nægilega góð eins og þau eru í dag. Auðvitað hangir þetta allt saman, en ég vildi nefna þetta. Við þurfum að taka þessa hluti til endurskoðunar og gera nauðsynlegar úrbætur, það er ljóst.

Hæstv. forseti. Þessi ræða er nú orðin lengri en ég ætlaði. Ég óska umhverfis- og samgöngunefnd alls hins besta í sinni vinnu og hlakka til að taka þátt í umræðu um málið þegar það kemur aftur hingað inn til þingsins, þá verður væntanlega komið meira kjöt á beinin þar sem allar umsagnir munu verða komnar í hús. Þá fáum við kannski meiri dýpt í umræðuna og getum myndað okkur sterkari skoðanir á því sem fyrir liggur í þessari þingsályktunartillögu. Þetta er ágætisbyrjun, vissulega ekki fullkomið, en við hv. þingmenn munum vinna vel saman að því að skapa pólitíska sátt um hvaða skref við ætlum að taka á næstu árum. Það er mjög mikilvægt.

(Forseti (SJS): Forseti er pollrólegur yfir lengd ræðunnar svo lengi sem þær [Hlátur í þingsal.] rúmast innan tímamarka.)