146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir fína ræðu. Hún hefði alveg mátt vera enn þá lengri. Mig langar aðeins að velta upp vangaveltum mínum í þessu samhengi. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að 90% af framleiddri orku er í notkun hjá stóriðjunni í landinu. Nú á dögunum lagði hæstv. iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar varðandi aðgerðaáætlun um orkuskipti. Hvað finnst hv. þingmanni um stefnu stjórnvalda í þeim málum? Það hefur verið lenska í gegnum tíðina að fara út í virkjanir til þess bara beint að stinga í samband við eitthvert álver. Það er virkjað fyrir stóriðju.

Núna er spurningin eðlilega: Hvar vantar rafmagn? Eru það heimili og minni fyrirtæki í landinu? Er það þrýstingur frá stóriðju? Eða horfum við fram á breytta tíma og breytt samfélagsmynstur og sjálfbæra þróun í þessum efnum varðandi orkuskipti og nýtingu á grænni orku til orkuskipta, hvort sem það er á landi, láði eða legi?

Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég vitnaði í kemur fram að lagt er til að markmið fyrir árið 2030 verði 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum í landinu samanborið við eldsneytisspá sem gerir að öðru leyti ráð fyrir 27% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2030. Þykir hv. þingmanni ekki kominn tími til að við förum að tengja þetta allt saman, fyrir hvað við ætlum að virkja og hvort við séum í raun að tala um orkuskipti í bílaflota landsins o.s.frv.?