146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, eða rammaáætlun 3, eins og hún er oftast kölluð. Búið er að koma víða við í ágætri umræðu hér í dag, en í miðri umræðu fór ég aðeins að hugsa og lesa aðeins betur í textann í þingsályktunartillögunni, þá sérstaklega kafla 2.2 þar sem stendur:

„Í 2. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar leitaðist faghópur 3 við að meta möguleika einstakra virkjunarhugmynda til að valda breytingum, annars vegar á félagsgerð og hins vegar á efnahagsgerð samfélagsins, bæði staðbundið og á landsvísu. Niðurstöður faghópsins nýttust lítið sem ekkert við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn 3. áfanga að leita leiða til að nálgast samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda með öðrum hætti. Hópur sérfræðinga vann minnisblað með fyrstu tillögum að slíkri aðferðafræði og í framhaldi af því var faghópur 3 skipaður, til að „meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn telur æskilegt og mögulegt að leggja mat á“, eins og það er orðað í skipunarbréfi hópsins. Meðal nýmæla í starfi faghóps 3 voru íbúafundir með íbúum á svæðum þar sem virkjunarkosti er að finna. […] Faghópur 3 skilaði niðurstöðum af íbúafundum og úr skoðanakönnun meðal landsmanna. Aðferðafræði þess hóps leyfði hins vegar ekki röðun virkjunarkosta.“

Í þingsályktunartillögunni kemur líka fram:

„Hinn 12. október 2015 skipaði verkefnisstjórn faghóp 4 til að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag. […] Faghópur 4 komst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Því var ekki um aðrar niðurstöður að ræða frá þeim faghópi.“

Þannig að ferlið virðist ekki alveg hafa gengið upp.

Fram kemur í inngangsorðum þingsályktunartillögunnar sem við ræðum hér:

„Í verndar- og orkunýtingaráætluninni skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.“

Þannig að spurningin er: Er verið að uppfylla laganna bókstaf með þessari vinnu þar sem faghópar 3 og 4 skila ekki niðurstöðum sem nýtast í þeirri vinnu sem hér er verið að vinna? Erum við kannski hér með hálfunnið verk í höndunum þar sem samfélagslegum og efnahagslegum þáttum er sleppt? Ég vildi bara koma því inn í umræðuna. Ég áttaði mig á því þegar ég las þetta aftur yfir í dag þegar við vorum í umræðunum. Mér finnst það ekki alveg stemma allt saman.

Varðandi síðan aðra þætti í þingsályktunartillögunni sem rétt er að minnast á, eins og vindorkuna, þá er minnst á í þessari áætlun að Búrfellslundur fari í bið og síðan er talað um að Blöndulundur fari í nýtingu. Þar er heppileg staðsetning fyrir orkudreifingarkerfið og annað, það þarf litla innviði til að tengja það við raforkukerfi landsins. Ég vildi rétt aðeins koma inn á þetta og undirstrika mikilvægi þess að við skoðuðum það betur í framhaldinu hvernig við ætlum að fara með vindorkuna þar sem ég vil forðast að við lendum í sömu stöðu og við sjáum vítt og breitt um Evrópu, þar sem vindmyllum er dreift ótrúlega víða. Maður er nánast alltaf með þær í augsýn þegar maður keyrir um Evrópu.

Ég hefði viljað sjá að þetta væri hugsað þannig að við værum með eins og 50–100 myllur á sama stað á nokkrum stöðum á landinu, en dreifðum þeim ekki vítt og breitt um landið. Mér finnst mikilvægt að við förum að fara í þessa umræðu og móta hana vegna þess að það er mikil gerjun á þessu sviði. Það hefur komið í ljós í rannsóknum að nýting vindmylla er á fáum stöðum meiri og betri en hér á landi, um 42%, minnir mig, á móti 28% nýtingu á vindmyllum á heimsvísu. Þarna virðumst við vera að koma með líka hagkvæman kost með lækkun á verði vindmyllna á uppsetningu og þess háttar. Þess vegna þurfum við að fara að móta stefnu um hvað við viljum sjá í því efni.

Orkuskiptin eru gríðarlega mikilvægt mál. Sjálfur hef ég keyrt á rafmagnsbensínbíl í þrjú ár og er mikill talsmaður þess að við förum í orkuskiptin og þær ágætu hugmyndir sem komu fram í Grænu orkunni. Við ræddum það í síðustu viku þegar við vorum að ræða loftslagsmálin að það er mikið að gerast einmitt þessar vikurnar á því sviði.

Síðan vil ég líka nota tækifærið og ræða, af því að ég er þingmaður fyrir Norðausturkjördæmi, þá alvarlegu stöðu sem komin er þar upp í flutningskerfinu á raforku og raforkuflutningunum. Í Eyjafirði er stöðnun sem hefur nánast verið í heilan áratug. Við sjáum ekki fram á annað en að það verði þó nokkuð í það að þessi mál verði leyst með einhverjum hætti, að við fáum betri raforkutengingar inn á svæðið. Það má því reikna með að það verði 15 ára tímabil algjörrar stöðnunar á þessu sviði. Í haust bárust fréttir frá Akureyri af því að fyrirtæki í iðnaði hefðu keypt sér olíukatla til að tryggja sig fyrir raforkutruflunum og skerðingum. Það er mjög sérstakt að við séum komin í þessa stöðu. Það lýsir mjög alvarleika þessa máls.

Þess vegna held ég, eins og komið hefur hefur fram hjá mörgum þingmönnum í umræðunni í dag, að það er gríðarlega mikilvægt að við förum að huga að byggðalínunni og hvernig við ætlum að tengja raforkukerfið. Ég hef heyrt að í Blönduvirkjun séu lokuð inni 10, 20 megavött af orku sem aldrei hafa nýst vegna þess að flutningskerfið er svo veikt. Flutningskerfi byggðalínunnar er nú um 100 megavött. Víða er það orðið 40, 45 ára gamalt. En nýrri byggðalína mundi hafa flutningsgetu upp á 400, 500 megavött, sem mundi breyta þessu umhverfi mikið. Ég held að sé líka mikilvægt að við förum að opna á það hvernig við ætlum að tækla þetta hér, þ.e. orkudreifingu um landið, hvort við ætlum að fylgja byggðalínuhringnum, Sprengisandsleiðinni eða hvað — strengir, DC-strengir eða annars konar strengir. Það verða alltaf stór og erfið vandamál hvað sem við gerum og ætlum okkur að gera.

Suðvesturhorn landsins býr satt að segja við eitt öflugasta raforkukerfi á jörðinni, gríðarlega öflugt kerfi sem búið er að byggja upp á undanförnum árum og áratugum. Menn eru vanir mjög góðu kerfi hér, þeir eru ekki vanir truflunum eða skorti á raforku vegna þess að flutningskerfið virkar ekki. Það er bara allt annað upp á teningnum vítt og breitt um landið.

Ég held satt að segja að þetta sé eitt af helstu verkefnum íslensks samfélags í dag og mikilvægt að þessi umræða nái inn á hið háa Alþingi. Auðvitað tengist það að mörgu leyti allt saman; orkuskiptin, það sem við vorum að ræða hér varðandi rammaáætlun og raforkukerfið. Ég vonast til að á næstu missirum förum við að taka umræðuna um raforkuflutningana og raforkukerfið í landinu af meiri krafti og á heilsteyptari hátt.