146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Ég vil eiginlega nota þetta tækifæri til þess að lýsa því að mér þykir það til mikillar fyrirmyndar að taka saman löggjöf sem er í brotum út um allar trissur í lagasafninu. Þetta er til þess fallið að auðvelda okkur þingmönnum, haghöfum, almenningi, að átta sig á hvert hlutverk stofnunarinnar er og hvaða tilgangi hún þjónar, auðveldar mjög yfirsýn yfir þennan málaflokk. Eins og fram kom í máli ráðherrans þá er ekki um efnislegar breytingar að ræða heldur að búa til heildstæðan lagabálk. Ég held að þetta sé gott dæmi um það að víða er hægt að taka brotakennda löggjöf og færa saman og huga að því að sama skapi almennt að við í störfum okkar við löggjöfina reynum að birta og kannski endurraða lögunum í heildstæða bálka þannig að menn þurfi ekki að vera að leita að því hvað er gildandi réttur hverju sinni. Ég fagna þessu.

Ég vil, bara til þess að það sé ein spurning í mínu máli, spyrja hvort við getum ekki nokkurn veginn treyst því að hér sé eingöngu um það að ræða að verið er að safna saman á einn stað því sem þegar er fyrir hendi en ekki verið að breyta efnislega ákvæðum.