146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að spyrja virðulegan forseta um siðareglur fyrir alþingismenn sem við hv. alþingismenn skrifuðum undir. Þar stendur m.a. í c-lið 5. gr. um meginreglur um hátterni:

„Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.“

Sömuleiðis segir í 7. gr.:

„Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.“

Mig langar til þess að spyrja virðulegan forseta hvernig þetta rími við orð hæstv. fjármálaráðherra á dögunum þar sem hann kallaði Alþingi siðlaust. Ég bara spyr: Er þetta við hæfi? Er ekki kominn tími til þess að við tökum almennilega á þessu? Hér eru samþykktar siðareglur. Ég alla vega tel hæstv. fjármálaráðherra hafa sýnt (Forseti hringir.) óvandað hátterni gagnvart Alþingi með framkomu sinni í þessum fjölmiðlum.