146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég ætlaði að taka undir orð hv. þm. Halldóru Mogensen enn einn daginn. Ég vona í rauninni að forseti sé orðinn leið á því að ég komi hér aftur og aftur og biðji um að dagskrá þingsins liggi fyrir með meiri fyrirvara vegna þess að ég er orðinn svolítið leiður á því að þurfa að koma upp og minna á þetta dag eftir dag. Það er þannig við þurfum að geta undirbúið okkur í störfum okkar og það er nauðsynlegt að bæði við og fólk úti í samfélaginu geti það.

Nú er það þannig að dagskrár fastanefnda liggja yfirleitt fyrir með ágætisfyrirvara. Ekki er endilega vitað hversu langan tíma mun taka að ræða ákveðin mál þar inni en samt er gefin út dagskrá og það gengur ágætlega. Ég skil ekki af hverju við getum ekki farið eftir sömu uppskrift hér, vissulega er alltaf einhver flækja en þetta er einfalt.