146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:09]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Við skulum þá gera það að lítilli hefð hér að ég komi forseta til varnar vegna athugasemda um skort á fyrirliggjandi dagskrá. Eins og fram hefur komið í umræðunni og eins og rætt var var það gert að orðum mínum að ástæðan væri lengd umræðunnar. Ástæðan fyrir því að það er erfitt að skipuleggja dagskrá marga daga fram í tímann er ekki lengd umræðunnar per se heldur ófyrirsjáanleiki hennar. Í gær var til dæmis umræða um rammaáætlun. Hún hefði getað klárast á tveimur tímum, hún hefði getað haldið áfram í dag. Á meðan það er staðan er dálítið erfitt að sjá hvernig dagskráin muni verða á næstu dögum. Ég veit að fram undan eru umsóknir í rannsóknarsjóð námsmanna. Ég ætla að ota þeirri hugmynd út í samfélagið að menn fari í smágreiningu til að spá fyrir um lengd umræðu út frá nokkrum þáttum eins og til dæmis því hverjir standa að henni og hvaða mál verður lagt fyrir. Ég held að það gæti verið mjög gagnlegt. Ég held að á meðan þetta er staðan, á meðan við ákveðum ekki fyrir fram hve lengi umræður eiga að standa yfir, reynist erfitt fyrir forseta að skipuleggja dagskrá langt fram í tímann.