146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka aftur upp þráð sem hv. þingmenn hafa rætt hér, þ.e. hvað varðar orð hæstv. fjármálaráðherra í garð Alþingis. Ég ítreka þá spurningu sem beint hefur verið til hæstv. forseta hvort hún hafi tekið þessi mál upp við hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherrar sitja hér í umboði Alþingis og það er vægast sagt sérkennilegt að tala með þeim hætti um ákvarðanir Alþingis, löggjafarsamkundunnar, sem hæstv. ráðherra gerði í fjölmiðlum í gær. Mér finnst það vekja verulegar spurningar um það hver staða löggjafans er í hugum hæstv. ráðherra og þess hæstv. ráðherra sem talaði með þessum hætti. Ég veit að forseti sem okkar leiðtogi hér í þinginu og talsmaður tekur það hlutverk sitt mjög alvarlega. Ég ítreka því þessar spurningar: Hefur hæstv. forseti tekið þessi mál upp við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra?