146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leyfa hv. þm. Pawel Bartoszek að vera eini þingmaðurinn sem kemur forseta til varnar. Umræðan um skipulag fundarstarfa er svo sannarlega ekki ný. Eins og hv. þm. Pawel Bartoszek bendir á snýr þetta m.a. að þeim tíma sem við notum til að ræða mál. Hluti af verkefni þessa þings á kjörtímabilinu hlýtur enn á ný að vera að reyna að ná einhvers konar samkomulagi um það hvernig við viljum hátta þingstörfum. Ef við teljum mikilvægt að fyrirsjáanleiki sé í þingstörfunum hafa hér margítrekað verið ræddar hugmyndir um að horfa til hinna Norðurlandanna og ákveða hversu löng umræðan eigi að vera. Ég hef hins vegar alltaf sagt á móti að við þurfum þá að tryggja að minni hluti Alþingis fái þá önnur tæki en að standa hér í pontu og tala, m.a. að minni hluti geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og er t.d. í stjórnarskránni í Danmörku. Þetta er stórmál, en ekki eitthvað sem forseti, eins öflug og hún þó er, (Forseti hringir.) getur tekið á ein. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)