146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Til hamingju með daginn. Mig langaði aðeins að taka undir það sem hv. þm. Halldóra Mogensen fór inn á og lesa fyrir ykkur dagskrána í dag, sem hefði alveg getað legið fyrir sem drög að dagskrá og verið komin inn fyrir vikuna. Við ætlum að fjalla um lokafjárlög, orlof húsmæðra, tekjustofna sveitarfélaga, atvinnuleysistryggingar, bótarétt fanga, hjónavígslur og nafngiftir, flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar og húsnæði Listaháskóla Íslands. Ef það hefði legið fyrir með skýrum hætti að þessi mál væru fyrirhuguð á dagskrá þingsins í þessari viku, sem og kannski önnur mál sem munu jafnvel liggja fyrir í kvöld og verður á dagskrá á morgun, þá hefði, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á, verið auðveldara fyrir okkur þingmenn sem og almenning að kalla eftir ábendingum frá samfélaginu. Mér finnst svolítið lykilmál varðandi (Forseti hringir.) þingstörfin að það sé lagað.