146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist eftir síðustu ræðu því að hv. Alþingi er komið út á mjög svo hættulega braut ef þeir sem á eftir koma eru ekki bundnir af neinu af því sem gert hefur verið á undangengnum þingum. Þá hljótum við öll að íhuga það hvort það sé taktískt rétt — ef við viljum fá áherslubreytingar á einhverju sem samþykkt hefur verið, eigum við þá bara að leggja okkur niður og bjóða okkur fram í krafti nýs nafns og nýs stjórnmálaflokks? Þannig getum við auðvitað ekki starfað hérna. Það Alþingi sem tekur við eftir kosningar er að sjálfsögðu alltaf bundið af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og þá þurfa að koma til nýjar og breyttar ákvarðanir ef hverfa á frá þeirri stefnu. Annað eru að mín viti fáránleg vinnubrögð og þá erum við komin út á mjög hættulegar brautir með lýðræðið.