146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í framhaldi af orðum hv. þm. Pawels Bartoszeks langar mig að lesa þetta upp, með leyfi forseta:

„Í kjölfar efnahagshrunsins varð að fresta aðkallandi og jafnvel bráðnauðsynlegum framkvæmdum á viðhaldi á vegakerfinu. Vandinn sem blasir við nú er bæði uppsafnaður vandi vegna þess og svo nýr vandi samfara auknu álagi á vegakerfið af völdum fjölgunar ferðamanna. Mat Vegagerðarinnar á fjárþörf til viðhalds og framkvæmda er ekkert ofmat, en mestu máli skiptir ábyrg tekjuöflun til uppbyggingar innviða. Viðreisn leggur til að tekið verði upp markaðstengt gjald af auðlindum í sameign þjóðarinnar, tekið verði upp afgjald af ferðaþjónustu.“

Svo er haldið áfram og talað um 32 milljarða kr. uppbyggingu. Ef það var óábyrgt að samþykkja samgönguáætlun sem mætti þörfum þjóðarinnar, hvað heitir það að koma með svona kosningaloforð, hv. þingmaður, í aðdraganda kosninga og gera svo ekkert með þau (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þegar menn skrifa undir stjórnarsáttmálann? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)