146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Það henti mig í gærkvöldi, eins og mörg önnur kvöld reyndar, að horfa á kvöldfréttir ríkissjónvarpsins. Þar var verið að segja frá skýrslu sem Copenhagen Economy hafði unnið um raforkumarkaðinn að beiðni Landsvirkjunar. Þar var danskur sérfræðingur tekinn tali. Hann mælti sumt af skynsamlegu viti en þó var sumt sem hann sagði sem vakti undrun mína og jafnvel ugg. Hann minntist m.a. á að hingað til hafi raforkuverð til stóriðju verið of lágt og ekki skilað nægilegri arðsemi. Samfélagið, þ.e. almenningur, hafi í raun verið að niðurgreiða raforkuna til stjóriðjunnar. Það eru engar nýjar fréttir. Við höfum vitað það lengi. Hann sagði jafnframt að nú væri þetta að breytast, raforkuverð færi hækkandi til stóriðjunnar. Það eru heldur ekki nýjar fréttir.

Það sem eru nýjar fréttir og vakti ugg og undrun var að hann benti á að nú þyrfti verð raforku til heimila hugsanlega að hækka svo að orkufyrirtækin misstu ekki áhugann á að selja heimilunum raforku. Þvílíkur dæmalaus þvættingur sem þarna var á ferð.

Sem betur fer var viðtalið við forstjóra Landsvirkjunar að því loknu. Hann dró allverulega úr þessu. En ég hef áhyggjur af þeim fræjum sem þessi ágæti danski maður sáði þarna. Almenningur á Íslandi borgar lágt raforkuverð (Forseti hringir.) í samanburði við aðrar þjóðir og mér finnst að íslenskur almenningur eigi að fá að halda því áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)