146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til þess að gera að umræðuefni hér í dag hvað það er sem við viljum í raun sem löggjafar og hvort ekki sé kominn tími til þess að staldra við og skoða hvaða afleiðingar þau lög sem þingið setur hafa á samfélagið. Er alltaf tryggt að lögin séu í samræmi við þá samfélagsgerð sem við viljum stuðla að?

Markmið fangelsisvistunar er betrun en raunin er refsing vegna skorts á tækifærum innan fangelsisins vegna skorts á fjármagni.

Markmið öldunarþjónustu er að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, en í raun er aðbúnaður aldraðra alls ófullnægjandi og dæmi eru um að stofnanir þar sem gamla fólkið er frelsissvipt, lyfjað og líður næringarskort, vegna skorts á fjármagni.

Markmið námslána er aðgengi að menntun fyrir alla, en raunin er útilokun fyrir marga vegna skorts á fjármagni.

Markmið samgönguáætlunar eru orðin tóm vegna skorts á fjármagni.

Það er í raun sama hvert litið er, stjórnarflokkarnir stýra umræðunni í þeirri skortstöðu sem orðin er vegna skattleysis stórfyrirtækja og stefnu stjórnvalda sem tryggir að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar rennur til örfárra útgerðarfyrirtækja í sjávarútvegi og erlendra auðhringja í stóriðjugeiranum, mantran í niðurskurði vegna skorts á fjármagni og markaðsvæðing.

Unga fólkið í landinu getur ekki komið undir sig fótum vegna þess að það getur ekki tryggt sér grundvallarmannréttindi eins og hafa þak yfir höfuðið og aðgang að menntun óháð efnahag. Gamla fólkið býr við skort. Öryrkjar búa við skort. Fólk með auðlæknanlega sjúkdóma er dæmt til vistar á biðlistum. Ríkisstjórnin talar gjarnan um ábyrgð og stöðugleika, en stöðugleikinn virðist felast í óbreyttu ástandi og ábyrgðin einungis gagnvart fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum.

Á hvaða tímapunkti horfumst við í augu við þá staðreynd að við erum ekki á réttri leið. Til þess þarf hugrekki og vilja til að endurhugsa samfélagið frá grunni. Til þess þarf vilja og getu til þess að tala um framtíðina, framtíð barnanna okkar, framtíð auðlindanna, framtíð loftslagsmála, framtíð fjármálakerfisins, og svo má áfram telja. Þá þarf fleiri úrræði og rök en að það séu ekki til peningar og niðurskurður sé eina ráðið.

Er nægilegt hugrekki saman komið í þessu húsi til þess að horfast (Forseti hringir.) í augu við þetta?