146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég óskaði hér eftir að eiga orðastað við hv. þm. Birgi Ármannsson. Í gær var til umræðu rammaáætlun og svo virtist sem einhverjir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins litu svo á að þeir hefðu efnislegan fyrirvara við stjórnartillöguna svo fram lagða. Því spyr ég hv. þingmann hvort einstakir þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða þingflokkurinn í heild hafi gert fyrirvara við efnisinnihald stjórnartillögunnar, því ef svo væri mundi það setja alla afgreiðslu og umræðu um það mál í nýtt ljós.

Mig langar, forseti, fyrst og fremst þó að ræða hér og fagna alþjóðlegum baráttudegi kvenna og óska okkur öllum til hamingju með daginn. Ég vil nota þetta tækifæri fyrir að þakka öllum konum sem hafa tekið slaginn gegnum árin fyrir launajafnrétti gegn kynbundnu ofbeldi, fyrir kynfrelsi, fyrir jöfnum tækifærum og bættum kjörum. Ég tel, virðulegur forseti, mikilvægt að við nýtum daginn til að skerpa sýnina, til að taka höndum saman með öðrum konum í þágu baráttunnar, að við munum að standa með feministum af öllum kynjum sem eru að taka baráttuna og slaginn á hverjum einasta degi, að við stöndum með mæðrum okkar, með systrum okkar og dætrum okkar í þágu betra samfélags og fyrir betri heim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)