146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í stuttri umræðu eins og hér fer fram gefst ekki tími til að fara yfir alla þætti stjórnarsáttmálans er lúta að menntamálum eða öðrum verkefnum innan skólanna. Ég mun því einskorða mál mitt við hina svokölluðu 25 ára reglu og síðari ræðan mun fjalla um fjölbreyttara rekstrarform, sem virðist vera markmið í stjórnarsáttmálanum.

Við stöndum frammi fyrir stærri samfélagsbreytingum á næstu áratugum en við höfum þurft að takast á við í mjög langan tíma og atvinnulífið mun taka stakkaskiptum eins og ég nefndi hér áðan reyndar. Með sjálfvæðingu og gervigreind munum við halda á ný og óþekkt mið og eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það þessum nýja veruleika. Menntun verður í framtíðinni með einum eða öðrum hætti hluti fólks alla ævi, ekki með því fyrirkomulagi sem það er í í dag. Ungt fólk er okkar dýrmætasta auðlind. Í dag getur það valið allan heiminn að vettvangi og það er ekkert sjálfgefið að Ísland verði fyrir valinu. Við erum því algjörlega háð því að skapa því góða umgjörð og það á ekki síst við um menntakerfið. Atvinnulífið mun kalla eftir í ríkara mæli skapandi og frumkvæðisríkum einstaklingum og þá eiginleika verðum við að byrja að þroska, hæstv. ráðherra, strax í leikskólum. Hæstv. menntamálaráðherra getur mögulega komist skammlítið frá þessu verkefni þótt hann geri lítið annað en að halda sjó næstu fjögur árin því að atvinnubyltingin mun taka lengri tíma. Nú hefur hann þó tækifæri til að hefja sókn til þess að mæta þessum nýja veruleika. Mikilvægu fyrstu skrefin eru þau að gera öllum kleift að stunda nám. Stjórnarsáttmálinn gefur að vissu leyti ágætisfyrirheit en þar segir, með leyfi forseta:

„Efla skal möguleika eldri nemenda sem ekki hafa lokið framhaldsskóla á hefðbundnum tíma til að ljúka námi. Í því felst sameiginlegur ávinningur fyrir einstaklinginn og samfélagið allt sem felur í sér tækifæri til valdeflingar og velferðar.“

En í ljósi breyttrar menntastefnu sem samþykkt var í fjárlögum fyrir árið 2015 er þó nauðsynlegt að spyrja frekar út í þetta atriði. Þar voru nefnilega fjöldatakmarkanir á bóknámsnemendur í framhaldsskólum fyrir þá sem höfðu náð 25 ára aldri. Stefnan svínvirkaði og nemendum fækkaði strax um 40% milli ára. Nemendum var vísað í einkaskóla sem reka frumgreinadeildir og kostnaður nemenda margfaldaðist. Ríkið greiðir nefnilega sambærilega upphæð fyrir nemendur í fullu námi í einkaskólum og bóknámsskólum framhaldsskólanna. Þetta má bæði lesa í skýrslu Ríkisendurskoðunar og sjá ef skoðuð er nýleg eftirfylgniskýrsla frá 2012.

25 ára reglan sparar því engan pening og verður auk þess til þess að færri nemendur fara í nám. Fjöldatakmarkanir bitna hart á íbúum landsbyggðarinnar en einnig miklu frekar á konum en körlum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk dragi það að klára nám sitt og reynslan af því að gera þeim það kleift síðar á ævinni er afar góð. Þannig hafa margir tekið stúdentspróf eftir 25 ára aldur í framhaldsskólum í heimabæjum sínum og farið eftir það í starfsnám á háskólastigi og sinna nú margvíslegum störfum í sveitarfélögum um allt land.

Þetta var áður erfitt.

Eins og áður sagði bitnar þessi regla miklu harðar á konum en körlum. Ég vil því spyrja ráðherra hvort til standi að opna aftur leið fyrir 25 ára og eldri inn í opinberu framhaldsskólana, eða á að halda áfram að vísa fólki á einkarekin úrræði þar sem há skólagjöld eru innheimt? Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra í fyrri ræðunni hvort komi til greina að innheimta skólagjöld í auknum mæli af nemendum í framhaldsskóla og háskóla.