146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu og deili með honum þeim skoðunum að við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum á sviði menntamála. Það er alveg ljóst að þar eiga sér stað miklar breytingar, bæði í því sem lýtur að námsframboði, námsframvindu og því hvernig þetta er meðtekið, unnið með þetta og það fram reitt. Sem betur fer eru ágætar og góðar hugmyndir á þessu sviði í skólakerfinu, vítt um það. Síðast í morgun fékk ég upplýsingar um mál sem verið er að kanna og stendur til að kynna fljótlega. Það er því ýmislegt í þessu umhverfi sem er í mjög mikilli gerjun. Við sjáum víða góða vinnu í þeim efnum.

Varðandi þau atriði sem hér lúta að þá deili ég alveg hugsuninni og framsetningu hv. þingmanns á því að menntakerfið gegni lykilhlutverki í því að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Þekking, menning, listir og nýsköpun mun á komandi árum skipta enn meira máli fyrir atvinnulíf, menningu og samfélagið en það hefur gert á undanförnum áratugum og þar með verður þetta æ ríkari undirstaða lífsgæða landsmanna. Þessar áherslur falla ágætlega saman við þau ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og á ýmsum sviðum þessa máls er verið að vinna í ýmsum verkefnum innan ráðuneytisins á því málefnasviði sem ég veiti forstöðu. Ég vil nefna þar t.d. endurskoðun á reiknilíkani framhaldsskóla, vinnu að því að brotthvarf sé að minnka í framhaldsskólum sérstaklega, eflingu starfsmenntunar, þar er ákveðin vinna í gangi.

Svo vil ég nefna eitt mál sem ég veit að okkur hv. þingmanni er báðum hugleikið sem lýtur að því hvernig list- og verknámi er sinnt í grunnskólum. Þar leiðir úttekt ráðuneytisins í ljós að sveitarfélögin hafa ekki farið að og tryggt skyldubundið námsframboð, sem er ákaflega erfitt að meðtaka. Við hljótum að geta sammælst um það að hvetja sveitarfélögin til að gera bragarbót þarna, þó ekki væri annað.

Varðandi 25 ára regluna sem er um rætt vil ég segja það hér að hana er að finna í staflið g í stafliðaupptalningu frá a–i í reglugerð sem á uppruna sinn frá árinu 2008, reglugerð nr. 1150. Henni var lítillega breytt árið 2012 og frá árinu 2012 hefur ekki verið gerð nein breyting á reglugerðinni. Ég átta mig því ekki alveg á því hvaða 25 ára reglu er verið að tala um hér að öðru leyti en því að sú forgangsröðun sem framhaldsskólarnir skulu fara eftir, ég bið hv. þingmann að taka eftir þessu, byggir á þessari reglugerð um inntöku og innritun nemenda og á eingöngu við um bóknám, svo að það sé sagt. Þar eru þessir stafliðir frá a–i, löng upptalning, en reglugerðinni hefur ekki verið beitt við annað en bóknámið.

Það sem ég tel og held raunar að hafi verið vísað til er að í fjárlögunum fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir því að þarna yrði um verulegan samdrátt að ræða. Mínar upplýsingar innan ráðuneytisins herma að ekki hafi reynt á þann texta sem er að finna í skýringunum með fjárlagafrumvarpinu árið 2015 og að því marki sem takmörkunum hafi verið beitt við innritun á nemendum í framhaldsskóla sé forgangsröðunin sem á er byggt og eftir er farið á grunni þeirrar reglugerðar sem upphaflega var sett árið 2008.

Mínar heimildir innan úr ráðuneyti herma að (Forseti hringir.) engum 25 ára umsækjanda hafi verið vísað frá skólavist í framhaldsskóla.