146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að traust menntun óháð efnahag sé mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fái að blómstra. Þessu hljótum við öll að vera sammála. Við eigum raunar því láni að fagna að menntakerfið hér á Íslandi hefur lengst af náð að gegna mikilvægu jöfnunarhlutverki þannig að óháð bakgrunni einstaklinga sem fara í grunnskóla og framhaldsskóla stöndum við nokkurn veginn jafnfætis. Við getum fengið sambærilega menntun víðast hvar á landinu þannig að félagslegar aðstæður fólks eiga ekki að hamla því þegar kemur að menntun.

Þær upplýsingar sem ráðherrann nefndi hér varðandi 25 ára regluna stangast nú á við það sem maður heyrir úr hópi nemenda framhaldsskólanna. En það var náttúrlega kapítuli út af fyrir sig að 25 ára reglan væri virkjuð við afgreiðslu fjárlaga en ekki að undangenginni umræðu um menntapólitík úr þessum ræðustól. Eins þykir mér furðulegt að þingið frétti af því á síðum Morgunblaðsins að samræmd próf séu allt í einu farin að sigta fólk inn í skóla eftir því hvernig það stendur. Eitthvað sem við töldum að væri aflagt er allt í einu tekið upp aftur án nokkurrar umræðu, án nokkurrar menntapólitískrar umræðu á þessum vettvangi. Hvernig fær það staðist? Hvernig fær það staðist að grafið sé undan félagslegu jöfnunarhlutverki menntakerfisins með einhverjum hjáleiðum, í gegnum það að svelta menntakerfið, án þess að umræðan sé tekin hér þar sem ákvarðanir eiga að vera teknar?