146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:16]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Loga Einarssyni, kærlega fyrir þessar umræður í dag og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég er mjög þakklát fyrir að við skulum ræða hér stjórnarsáttmálann og menntamálin. Þessi kafli í stjórnarsáttmálanum er mér kær og ég viðurkenni að þar er margt að finna sem brennur á mér.

Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Traust menntun, óháð efnahag, er mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fái að blómstra. Menntakerfið gegnir lykilhlutverki við að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipta sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld.“

Og:

„Nauðsynlegt er að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.“

Það tel ég vera forsendu þess að við getum byggt upp það menntakerfi sem áður var lýst.

Í síðustu viku kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem kemur fram að yfirvofandi er alvarlegur kennaraskortur. Við sem starfað höfum á fyrstu skólastigum höfum lengi bent á þetta.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er vinna hafin innan ráðuneytisins um hvernig bregðast megi við þessu vandamáli? Er verið að ræða einhvers konar aðgerðaáætlun? Það má ekki bíða mínútu lengur.