146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Sú stefnubreyting sem var tekin í fjárlögum fyrir árið 2015 þar sem nemendaplássum í framhaldsskólum var fækkað varð til þess að reglugerðin frá 2008 virkaði þannig að margir bóknámsnemendur fengu ekki skólavist. Áður höfðu þeir ekki haft fyrsta val um að velja í hvaða framhaldsskóla þeir vildu ganga en þeir fengu skólavist. Þannig er það bara. Samkvæmt skriflegum svörum frá menntamálaráðuneytinu við spurningum mínum fækkaði bóknámsnemendum í framhaldsskólum sem voru 25 ára eða eldri um 447 á milli áranna 2014 og 2015. Þetta er meðalstór framhaldsskóli sem þarna hverfur í heilu lagi. Og fátt sýnir betur en þessi staðreynd hvaða áhrif menntastefna hafði á síðasta kjörtímabili. Menntun verður ekki frá okkur tekin, hún er verðmæt, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Þess vegna er afar slæmt ef færri einstaklingar fara í nám en þess óska og óskiljanlegt og óskynsamlegt að reka menntastefnu sem leiðir til slíks.

Ákvörðun sem tekin var á síðasta kjörtímabili um fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum var afar óskynsamleg og hún varð til þess að þeir sem eru 25 ára og eldri og vilja sækja um skólavist telja sig ekki lengur velkomin í bóknám framhaldsskólanna. Stjórnvöld lögðu stein í götu þeirra.

Við þekkjum öll fólk sem hefur þurft að hætta námi vegna ýmissa ófyrirsjáanlegra aðstæðna, svo sem veikinda eða fjárskorts, en farið aftur í framhaldsskóla í heimahéraði sínu eftir slíkt hlé. Mörg þeirra halda uppi þjónustu í samfélögum víða um land.

Getur hæstv. ráðherra staðfest að falla eigi frá menntastefnu fyrri ríkisstjórnar sem kynnt var með einni setningu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015? Verða bóknámsnemendur boðnir velkomnir í framhaldsskóla landsins óháð aldri eða munu þeir þurfa að leita sér (Forseti hringir.) menntunar í einkaskólum með tilheyrandi kostnaði?