146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tvennt: Ætlar ráðherra að fella út orðin „og niðurstöður samræmdra prófa og reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla“ en þau stangast á við tilgang samræmdra prófa samkvæmt reglugerð um samræmd próf?

Annað: Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf jafnræði nemenda og valfrelsi með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform …“

Virðulegi forseti. Fjölbreytt rekstrarform skóla hefur ekkert með jafnræði eða valfrelsi nemenda að gera. Námsumhverfið og hvar og hvernig nemandi lærir og þroskast hefur ekkert með það að gera hvernig peningar flæða úr einum vasa í annan — nema kannski í stærðfræðitíma.

Í aðalnámskrá grunnskóla stendur, með leyfi forseta:

„Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum.“

Til viðbótar:

„Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“

Eina rekstrarformið sem skiptir máli fyrir nemendur er lýðræðislegt.

Ég vil vitna til nýlegs stefnumótunarfundar með grunnskólanemum í Reykjavík þar sem fram komu óskir um meiri kennslu í forritun, betri fjármálafræðslu, meiri stærðfræði, minni stærðfræði, meiri tækni, betri mat og matarmenningu í skólum, hinseginfræðslu og umhverfisvitund. Þar er jafnræðið. Þar er valfrelsið. Við þurfum að styrkja og styðja nemendur.

Með leyfi forseta langar mig að vitna í friðarnóbelsverðlaunahafa 2014, en Malala Yousafzai mælti svo:

„Do not wait for someone else to come and speak for you. It's you who can change the world.“

Á okkar ylhýra: „Ekki bíða eftir að einhver annar tali fyrir þína hönd. Það ert þú sem getur breytt heiminum.“

Þegar þú stendur fyrir þínu hefur þú áhrif á þitt umhverfi. Þín rödd, þinn réttur, þitt val. Skóli er fyrir nemendur, ekki rekstraraðila. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)