146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:32]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma aftur inn á mikilvægi kennara, sérstaklega með tilliti til fyrsta skólastigsins í menntakerfi okkar. Ég hef reynt að hugsa hvernig fyrsta skólastigið væri án faglærðra leikskólakennara. Viti menn, ég get ekki leyft mér að hugsa þannig.

Í 2. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, segir, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:

a. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,

b. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,

c. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,

d. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,

e. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,

f. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.“

Við erum að búa til einstaklinga á leikskólastigi. Við getum það ekki án faglegra kennara.

Ég vil einnig nefna fyrirbæri sem ég var kynnt fyrir á ráðstefnu í Helsinki í sumar, Baby Pisa, eða Pisa-próf fyrir fimm ára börn sem verið er að vinna með á vegum OECD-ríkjanna. Mér hugnast ekki að Ísland geti hugsað sér að taka þátt í slíkri þróun fyrr en við höfum náð að mæta lögbundinni skyldu um að tveir þriðju hlutar stöðugilda í leikskólum skuli mönnuð leikskólakennurum í leikskólum landsins. Ég vil einnig nota tækifærið og nefna hversu mikilvægt það er að samtök kennara, stjórnvöld og háskólar taki á þessu í sameiningu. Það er brýnt því að það snýst um framtíð menntakerfisins og landsins.