146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:10]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Í innleggi sínu lagði hv. þingmaður út frá stjórnsýslu skapandi greina og sagði hún væri veikburða og tvístruð. Það er rétt að þessi mál hafa tvístrast um mörg ráðuneyti og stundum hefur komið fram sú krafa um að sameina stjórnsýslu hinna skapandi greina í einu ráðuneyti. Sú krafa er að mörgu leyti skiljanleg í ljósi þess að annaðhvort hafa þessi mál týnst í miklu stærra ráðuneyti sem hefur önnur mál í forgrunni, eða þá, eins og hefur áður verið sagt, tvístrast þau í mörgum ráðuneytum.

Ég er reyndar ekki viss um að þetta eitt og sér sé góð hugmynd. Í þeim löndum þar sem þetta hefur verið gert hafa viðkomandi ráðuneyti oft verið dálítið veikburða og ekki haft mjög mikið pólitískt vægi. Ég hef líka þann grun að þetta sé ekki endilega það mál sem mest brenni á þeim. Ég byggi þann grun á tilfinningu minni eftir að hafa talað við listamenn og auðvitað hafa listamenn ólíkar skoðanir. Það sem ég held að sé góð fjárfesting í þessum efnum er að við lítum til hluta eins og samkeppnissjóða, sem mig langar að koma að síðari mínútuna sem ég ætla að tala um málið.

Samkeppnissjóður er að mínu viti mjög góð leið til þess að fjárfesta og efla hinar skapandi greinar í sem víðustum skilningi. vegna þess að það er ekki einungis þeir sem fá úthlutað úr slíkum samkeppnissjóðum sem gera eitthvað heldur er oft allt ferlið, að sækja um viðkomandi samkeppnissjóð og leggja af stað með einhverja hugmynd, sem sáir þeim fræjum sem síðan verða að einhverju jafnvel þótt viðkomandi hugmynd hljóti ekki styrk í hvert skipti. Þetta er mikilvægt mál. Ég held að sé gott fyrir okkur að hafa það í huga varðandi þennan þátt að setja fé þangað frekar en á aðra staði.