146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa gagnlegu umræðu í dag. Hún hefur verið innihaldsmikil, andrík og giska skapandi. Við eigum í landinu öfluga skólastjórnendur á öllum stigum. Þeir gera sér góða grein fyrir straumum og viðhorfum meðal ungs fólks, áhugasviði og hvert hugurinn stefnir. Flestir skólastjórnendur vilja gjarnan hafa meiri sveigjanleika í námi og aðstöðu og gefa sem flestum nema sinna tækifæri til að njóta styrkleika sinna og hugðarefna, en kostirnir í þeim efnum hafa verið af skornum skammti almennt, ekkert síður hin seinni ár. Ég minnist þess að á mínum barnaskólaárum var kennsla í smíðum, handverki, málun, teikningu og hannyrðum fastur og mikilvægur liður í náminu, rétt eins og leikfimi. Í dag virðast list- og verkgreinar vera einhvers konar afgangsstærð hvað sem aðalnámskrá líður og ástæðan sem upp er gefin er peninga- og aðstöðuleysi.

Skólastjórnendur á framhaldsskólastigi stríða við sömu vandamál og gera sér nákvæmlega grein fyrir nauðsyn fjölbreytileikans fyrir ungt fólk sem hefur aðra sýn á lífið en kynslóðin á undan. Þeirra metnaður stendur til að glæða áhuga nemendanna, efla og mennta sem flesta og vinna gegn brottfalli sem er sérstakt vandamál í íslensku skólakerfi. Og það er ánægjulegt að ræða við áhugasama skólastjórnendur og skynja hversu vel þeir lesa umhverfið. Mér kemur í hug Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi þar sem mikill áhugi er á skapandi námsbrautum. Einn angi af því er íþróttabraut sem er vinsæl og dregur að nemendur frá öllu landinu. Hugmyndir eru líka uppi um leiklistarbraut sem styðji við ríka tónlistarskólahefð í bænum og jafnvel listmálunarbraut. Allt falli þetta vel að verknámsbrautum skólans og skapi fjölbreytta kosti fyrir nemendur til vaxtar og þroska. Hið sama á auðvitað við um fjölmarga aðra framhaldsskóla.

Á þessum sviðum þurfum við að eflast, að saman fari menntun hugar og handa í skapandi atvinnugreinum sem eru reyndar þegar orðnar stóriðja á Íslandi. Okkur miðar áfram, innan menningariðnaðarins og skapandi atvinnugreina þarf skapandi hugsun. Hér inni á þingi þarf skapandi hugsun.

Og spurt er: Skortir eitthvað á það, erum við tilbúin?