146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir fjölbreytta umræðu. Ég held að við séum öll sammála um að ef þetta hús væri bara grár kassi og ekkert meir liði okkur öllum verulega miklu verr, ef við værum öll bara klædd í plastpoka liði okkur öllum verulega miklu verr, ef það væri engin tónlist, engar kvikmyndir, engar bækur, þá liði okkur öllum verulega miklu verr.

Ekkert af þessu er til nema af því að stjórnvöld á hverjum tíma hafa sýnt sóknarhug í því að styrkja þennan grunn, hvort sem er í gegnum listmenntun og menntun í skapandi hugsun eða í gegnum framlög til menningarstofnana eða samkeppnissjóða á borð við þá sem listamannalaun eru veitt úr. Þessir styrkir hins opinbera eru aðeins lítill hluti af hinni efnahagslegu veltu en eru alger grundvöllur, alger undirstaða, hvort sem er undir hin efnahagslegu umsvif eða bara til að gera samfélag okkar að betri stað.

Ég minni á það, frú forseti, að samfélög eru jú fyrst og fremst dæmd út frá þeirri menningu sem þar er. Þar eigum við mikla sögu, en það skiptir miklu að við eigum líka mikla og bjarta framtíð í þeim efnum.

Þess vegna segi ég: Ég hvet stjórnvöld til að sýna hér sóknarhug og horfa á það að listirnar, menningin og hinar skapandi greinar eiga að vera tilraunastofa. Þar er ekki hægt að styrkja bara út frá tilliti til væntanlegrar arðsemi því að hana er erfitt að meta. Við eigum að þora að fjárfesta í þessari tilraunastarfsemi og sjá hverju hún getur skilað okkur í samfélagslegum en líka efnahagslegum gæðum.

Hæstv. ráðherra nefndi hér fagráðið á sviði hugvísinda og lista. Kannski væri rétt að hafa það fagráð bara á sviði lista. Þær eru vissulega aðeins öðrum lögmálum undirorpnar en hugvísindin þar sem ekki gilda sömu lögmál, leyfi ég mér að segja eins og hæstv. ráðherra, sem er úr sama ranni og sú sem hér stendur. En fyrst og fremst held ég að það skipti máli að við fáum hér fram skýra framtíðarsýn. Ég býð mig fram (Forseti hringir.) og ég er viss um að hv. þingmenn bjóða sig líka fram í samtal við hæstv. ráðherra um hvernig við getum séð komandi ár þróast þannig að við hugum að sókn í þessum efnum en ekki stöðnun. (BirgJ: Heyr, heyr.)