146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir ræðuna. Ég get tekið undir hvert einasta orð í ræðu hans og ætlaði reyndar að koma hingað upp í stutta ræðu til að benda á það sem er óvenjulegt við þetta frumvarp til lokafjárlaga. Lokafjárlög eru í raun bara til að staðfesta ríkisreikning og sjaldan er mikið rökrætt eða rifist um frumvarp um lokafjárlög. Við erum líka að tala hér um árið 2015 og við erum löngu búin að afgreiða mest af þeim málum.

Það sem er óvanalegt við þetta frumvarp eru niðurfellingarnar og þær eru jafnframt viðkvæmar, eins og hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, kom inn á í ræðu sinni. Í frumvarpinu sjálfu er tekið á vandamálum þar sem ljóst er að hallinn er það mikill að ef hann yrði látinn halda áfram inn í framtíðina þyrfti að skerða nauðsynlega þjónustu svo mikið að við það yrði ekki unað. Síðan eru það tillögurnar sem fjárlaganefnd stendur sameinuð að og snýr að heilbrigðisstofnunum. Öll vitum við að staðan í heilbrigðiskerfinu er afar slæm og á henni þarf að taka. Hluti af keðjunni sem unnin var við síðustu fjárlagagerð, fyrir fjárlög 2017, var að skoða þetta, hvernig raunveruleg staða stofnana er, hvernig þær koma undan árinu 2015 og eins undan árinu 2016 inn í árið 2017.

Ákveðið var að fella niður hallann á heilbrigðisstofnunum sem stóð eftir á árinu 2015 til þess að ekki þyrfti að draga það frá fjárheimildum og til að það kæmi ekki niður á þjónustu við sjúklinga í landinu. En það er nokkuð sem ekki á að gera oft eða praktísera og það mun heldur ekki vera svo auðvelt með nýju verklagi sem fylgir lögum um opinber fjármál. Hér er um einstaka aðgerð að ræða og er mjög skiljanlegt að stofnanir sem ávallt halda sig innan fjárheimilda, hafa gripið til alls konar aðgerða og álags á starfsfólks, svo að dæmi sé tekið, verði ekki ánægðar með að horfa upp á að aðrar stofnanir fái felldan niður halla. Sá halli getur hafa orðið til með ýmsum hætti og stundum er hann algjörlega óviðráðanlegur. En eina heilbrigðisstofnunin sem ekki er þarna inni er Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem var innan fjárheimilda á árinu 2015. Ég tek undir orð framsögumanns og formanns fjárlaganefndar þegar hann segir að líta þurfi sérstaklega til þeirra stofnana sem standa sig vel og huga að því að metnaður þeirra detti ekki niður þegar þær horfa til þess að halli er felldur niður á öðrum stofnunum. Og hér brosir hv. þingmaður Guðjón S. Brjánsson út að eyrum enda málið honum skylt að einhverju leyti.