146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál tengist afgreiðslu fjárlaga og lokafjárlaga, afgreiðslu Alþingis í desember sl., þar sem fjárlaganefnd stóð í ströngu við að loka ákveðnum holum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 með tilliti til, eins og nefndin sammæltist um, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, samgangna og löggæslu. Allt var tínt til til að reyna að brúa það bil og ná því markmiði sem við settum okkur. Það sem var erfitt var að afla tekna til að fjármagna þær aðgerðir, aðallega vegna þess að fjárlögin sjálf höfðu farið þó nokkuð langt fram úr fjárhagsáætlun. Það munaði um 23 milljörðum á áætluninni og frumvarpi til fjárlaga, minnir mig að hafi verið. Það var því þröngt um vik að ná í aukatekjur til að brúa bilið í heilsugæslu, menntun og samgöngum, en við höfum kynnst því á undanförnum dögum að í fjárlögum var engu bætt við í ákveðna liði heilbrigðiskerfisins. Það var á núlli. Við stóðum m.a. frammi fyrir því að forsvarsmenn Landspítalans sögðu okkur beint út að þeir þyrftu að fara í grófan niðurskurð. Hið sama var að segja um Háskóla Íslands.

Þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt samgönguáætlun, sem var ófjármögnuð á þeim tíma, var hún ekki fjármögnuð í fjárlagafrumvarpinu. Það kom því í hlut nefndarinnar og Alþingis að fjármagna það sem upp á vantaði í samgönguáætlun, en það náðist ekki að öllu leyti. Það var einfaldlega naumt skorið og vandséð hvar hægt var að leita fjár. Þegar verið var að tala um hvar væri hægt að finna pening til að brúa bilið þá leituðum við m.a. í lokafjárlögin sem við ræðum hér. Þá kom upp þessi regla sem var sett um að uppsafnaður halli umfram 10% af veltu fjárlaga eða meira en 50 millj. kr. myndi falla niður að einhverju leyti. Sú regla kom til tals og var útskýrð á þann hátt að hún kæmi í raun í staðinn fyrir þessa varasjóði sem eru tilgreindir í lögum um opinber fjármál. Þar voru stofnanir settar á ákveðinn mögulegan rekstrargrundvöll þar sem niðurfelling gæti ekki tekið tillit til þess rekstrarvanda sem þar ætti við, heldur væri með nýjum lögum verið að skerpa á ábyrgð ráðherra til að brúa bil á rekstraráætlun þegar einhver slys yrðu eða mistök ættu sér stað eða eitthvað ófyrirsjáanlegt gerðist og þá með þeim varasjóðum sem málefnasviðum er úthlutað. Til þess að byrja í raun á núlli voru lagðar til almennar niðurfellingar skulda.

Í einfeldni minni lagði ég til að við gætum kannski fellt niður skuldir Landspítalans, en það brýtur náttúrlega regluna sem var sett og ég tek bara ábyrgð á því að hafa stungið upp á því. Það var verið að tína allt til og nefndin bætti því við að taka tillit til allra heilbrigðisstofnana nema Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem var vel rekin og var í plús.

Eins og segir í nefndarálitinu þá eru þessar niðurfellingar einsdæmi og eru einfaldlega komnar til vegna þessara breytinga sem lög um opinber fjármál kveða á um og þess ástands sem var á Alþingi. Það var bara starfsstjórn að störfum eftir kosningar sem snerust að mjög miklu leyti um vandamál í heilbrigðiskerfinu. Ég efast um að þessar aðstæður komi nokkurn tímann upp aftur, lög um opinber fjármál koma vonandi í veg fyrir slík vandamál. Þessi aðgerð er algjört einsdæmi við mjög sérstakar aðstæður og hafa ber það sérstaklega í huga að það var ekki tilgangur minn sem nefndaraðila né skildi ég það svo á nokkrum öðrum nefndarmanni að þetta ætti að vera regla við afgreiðslu lokafjárlaga í framtíðinni.