146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á þessu máli, það er mjög mikilvægt. Í lögum um opinber fjármál er einmitt sérstaklega fjallað um skyldur forstjóra stofnana og ráðherra til að tilkynna fjármálaráðuneytinu án tafar ef möguleiki er á hallarekstri. Þá ber að tilkynna án tafar til hvaða ráða ráðherra eða forstjóri hyggist grípa til að bregðast við þeim mun á útgjöldum og fjárheimildum. Það á að grípa miklu fyrr til aðgerða til að rétta úr halla en gert hefur verið, og þá ekki með fjáraukalögum og slíku. Til þess hafa ráðherrar varasjóði. En það þarf alltaf að meta hvort rekstrarforsendur stofnananna séu raunhæfar eða ekki. Þá þurfum við að uppfæra upplýsingar í næstu fjármálaáætlun og fjárlögum. Ég held að þessi hluti laga um opinber fjármál, að bregðast eigi við án tafar við fyrirséðum halla, geti hjálpað. Auðvitað geta mannleg mistök orðið og því um líkt, en líkurnar minnka að minnsta kosti.