146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra að ég og hv. þingmaður verðum sameinaðir í því næstu árin að fylgjast með því hvernig framkvæmd fjárlaga samkvæmt nýjum lögum tekst til. Þetta er stór og flókin innleiðing og það litar kannski aðeins sýn okkar hversu skammt á veg innleiðingin var komin þegar við samþykktum fyrstu fjárlög samkvæmt nýja kerfinu hér fyrir jól.

Það vantaði algjörlega allt gagnsæi. Það hefði verið þrautin þyngri að sjá rekstrarforsendur hverrar stofnunar. Það hefði sömuleiðis verið nánast ómögulegt að bera raunútgjöld saman við áætluð útgjöld og tekjur. Ég vona að ráðuneytið muni í framhaldinu standa við þau fyrirheit að koma tímanlega með góðar upplýsingar til að þingið geti sinnt fjárveitingahlutverki sínu. Ef við fáum ekki nógar upplýsingar í þessum málum rennum við í raun mjög blint í sjóinn, sem er hættuspil fyrir löggjafarsamkunduna sem hefur fjárveitingavaldið og þá skyldu að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Til þess þurfum við tölur og upplýsingar frá ráðuneytunum, sem ekki tókst nógu vel að fá fyrir jól en það tekst vonandi betur fyrir næstu jól.