146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum eftir sem áður að ræða útgjöld upp á 30 milljónir á ári fyrir öll sveitarfélög landsins. Það eru 2 milljónir að meðaltali á hvert sveitarfélag. Þrátt fyrir efnahagsáföll síðustu ára efast ég um að það sé það þungur baggi á meðalsveitarfélagi að það standi varla undir því. Ef áhyggjur sveitarfélaganna snúast um það að yngri konur nýti sér þetta, sem hafa getað unnið sér inn réttindi í samfélagi sem einkennist ekki af jafn miklu misrétti og það samfélag sem þessi lög spretta upp úr, mætti þá ekki miklu frekar skoða að setja inn einhvers konar sólarlagsákvæði í lögin, að tiltaka að lögin eigi við konur fæddar fyrir ákveðið ártal þannig að við getum fylgt þeim konum, sem unnu láglaunastörf áratugum saman, sem unnu ólaunuð heimilisstörf til að halda samfélaginu gangandi áratugum saman, út lífið með þessi örlitlu réttindi? Hér er um að ræða svo óskaplega lítið framlag samfélagsins til þeirra. Við ættum kannski frekar að vera að ræða hvernig við gætum gert betur við þær, hvernig við gætum tryggt þeim meiri lífeyri t.d. af því að almannatryggingakerfið gerir ekki vel við fólk sem ekki hefur unnið sér inn mikil réttindi. Þar er verk að vinna. Þar mætti nú eyða meiri peningum, talsvert meira en 30 milljónum á ári ef vel ætti að vera.