146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

orð ráðherra um fjármögnun samgönguáætlunar.

[10:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í umræðum um síðustu samgönguáætlun kom ítrekað fram að mikilvægt væri að þverpólitískur stuðningur væri hér á Alþingi á bak við þá áætlun til þess að nýtt þing mundi tryggja fjármögnun hennar í ljósi þess að þörfin væri gríðarlega brýn. Bent var á að allt frá hruni hefðu framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu haldist í sögulegu lágmarki, eða í kringum 1,1–1,3% undanfarin ár. Framlög til samgangna hefðu ekki fylgt almennum uppgangi í efnahagslífinu undanfarin ár, enn síður stórauknum ferðamannastraumi.

Af þessum sökum, frú forseti, var samstaða um það hér á Alþingi að stórauka framlög til samgöngumála. Það var vegna þess að þörfin var brýn, ekki til þess að slá sér upp í kosningum. Við síðustu fjárlagagerð var svo ítrekað bent á þá stöðu samgönguáætlunar, þess vegna var fjármunum bætt við, en um leið var öllum hér inn ljóst að ýmsum stórum úrlausnarefnum var skotið til nýrrar ríkisstjórnar sem þá hafði ekki verið mynduð.

Í viðtali á Bylgjunni nú í vikunni var hæstv. fjármálaráðherra spurður að því hvernig stæði á því að samgönguáætlun væri ekki fjármögnuð. Hæstv. ráðherra sagði þá að það væri siðlaust af Alþingi að samþykkja samgönguáætlun sem ekki væri fjármögnuð.

Ég hefði nú talið að það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fylgja eftir samþykktum Alþingis fremur en að fara með slíkum svigurmælum sem Alþingi getur ekki setið þegjandi og hljóðalaust undir. Það má öllum vera ljóst að ef þessi ummæli hæstv. ráðherra standa óbreytt gagnvart Alþingi er það grafalvarlegt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji ekki nýta tækifærið í þessum stól til að endurskoða þessa afstöðu sína og taka þessi orð sín um siðleysi (Forseti hringir.) löggjafarsamkundunnar til baka.