146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

orð ráðherra um fjármögnun samgönguáætlunar.

[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þá vitum við að hæstv. ráðherra finnst í lagi að kalla löggjafarsamkunduna siðlausa. Þá liggur það bara fyrir. Þetta er ekki spurning um orðalag, þetta eru mjög stór orð sem hæstv. ráðherra lét falla og þá liggur bara fyrir að honum finnst þetta eðlilegur talsmáti gagnvart Alþingi. En hann situr einmitt í umboði þess sama Alþingis.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra út í önnur orð í sama viðtali þegar hann sagði að þingið hefði verið stjórnlaust af því að hér hefði ekki verið ríkisstjórn með meiri hluta á þeim tíma þegar fjárlög voru samþykkt. Í þessu sama viðtali segir hæstv. ráðherra það.

Ég vil þá spyrja: Er það skoðun ráðherrans að ríkisstjórnin stjórni Alþingi og ef ekki sé ríkisstjórn með meiri hluta á bak við sig sé Alþingi stjórnlaust? Er þá Alþingi undir stjórn núna? Og undir stjórn hvers?