146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

orð ráðherra um fjármögnun samgönguáætlunar.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Aftur snýst nú umræðan um orðaval. Eins og hv. þingmaður segir skýrði ég einmitt orð mín þannig þegar ég notaði orðið stjórnlaust — hefði kannski átt að segja ríkisstjórnarlaust þing vegna þess að ég tók það sérstaklega fram að ég væri að vísa í það að þá hefði ekki verið starfandi ríkisstjórn með meiri hluta á þingi. Aftur er hér verið að gera mikið úr orðum þar sem meiningin var alveg ljós og hefði verið ljósari kannski mörgum þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni ef þeir hefðu hlustað á viðtalið á þessum tíma.

Ég held að það sé mikilvægt að sýna Alþingi virðingu. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram að ég hef ekki sagt að Alþingi sé siðlaust. Það er auðvitað sitt hvað að segja að eitthvað gerist nánast eða gerist. Ég drukknaði nánast á afmælisdeginum mínum. Drukknaði ég? Nei. Ég drukknaði ekki. (Forseti hringir.) Ég lenti nánast í árekstri. Lenti ég í árekstri? Það gerði ég ekki. Þetta er grundvallarmunur, hæstv. forseti. [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (UBK): Forseti biður um hljóð í salinn.)