146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

framkvæmdir við flughlað á Akureyrarflugvelli.

[10:38]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Af framkvæmdum við flughlað á Akureyrarflugvelli er það að frétta að þar er allt stopp vegna fjárskorts. Ein af meginástæðum fyrir uppbyggingu flughlaðsins er öryggishlutverk flugvallarins. Í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010 skipti verulega miklu máli að hægt var að halda opinni gátt út úr landinu þegar Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur lokuðust vegna öskufalls. Þar gegndi þessi flugvöllur lykilhlutverki. Mögulegt var að bjóða farþegum upp á rútuferð norður í land og afgreiðslu beint upp í flugvél og þannig hægt að halda landinu opnu. Þessi aðgerð gekk ágætlega. Hins vegar er ljóst að skortur á flugvélastæðum hamlar aðgerðum verulega á Akureyri. Núna er einungis rými fyrir fjórar fullvaxnar farþegaþotur af gerðum t.d. Boeing 757 eða Airbus 320 samtímis á Akureyrarflugvelli.

Það er brýnt að þessum umbótum verði haldið áfram þannig að ásættanlegt rými sé til staðar þegar næsta eldgos bankar á dyr. Þegar í óefni er komið verður nefnilega ekki hægt að redda þessu flughlaði með skyndiaðgerðum. Svo má líka benda á það að það sem eykur enn frekar á nauðsyn á að þarna verði gert eitthvað er sú staðreynd að flugumferð hefur aukist gríðarlega frá árinu 2010 þannig að þetta kallar enn frekar á fyrirhyggju í þessu mikla öryggismáli og því spyr ég ráðherrann: Hvað ætlar hann að gera í málinu?