146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér þykir leitt að hafa valdið hv. þingmanni uppnámi með því að vitna í orð hans í þessu viðtali.

Ég hef heyrt um þessi lög. Það eru margvíslegir lagabálkar sem eru einmitt með þessu marki brenndir. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þarna stangast lög á, þannig að þetta er bara rétt hjá hv. þingmanni að þarna þarf að fara í lagabreytingar til þess að lög stangist ekki á. Þetta er nú kannski það, og ég hygg ef vel er að gáð að við hv. þingmaður séum nú kannski ekki allsendis ósammála í þessu máli eða hinu málinu sem hann gerði hér að umtalsefni í upphafi. Gallinn í þessu er þegar álit löggjafans eða löggjöfin sjálf stangast á. Það er það sem veldur auðvitað vandræðum og misskilningi. Í þessu tilviki sem við ræddum um með samgönguáætlun þá olli það því að væntingar urðu ekki í samræmi við efndir. Ég hygg að þarna þurfum við að taka til. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa bent á þetta mál.