146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Skipulagning og framkvæmd ferðaþjónustu er flókin auðlindanýting af augljósum ástæðum. Atvinnugreinin grípur inn í fjölmörg svið samfélagsins og styðst við fjölþættar náttúrunytjar. Þar með verðum við að setja henni ýmsar skorður. Náttúrunytjar kalla á náttúruvernd. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum getur tekið við tilteknum fjölda á dag, mánuði eða ári. Samfélagsálag vegna hraðrar þróunar kallar á viðbrögð. Við getum kallað það samfélagsvernd. Lítið þorp, segjum Vík, fær nærri milljón manns í heimsókn. Þróun ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti kallar á varúð og viðspyrnu svo ein atvinnugrein vaxi ekki öllum öðrum langt yfir höfuð og skaði afrakstur landsins í heild.

Af þessum sökum og umhyggju fyrir næstu kynslóðum er yfirlýst stefna að ferðaþjónustan verði ávallt sjálfbær — og hér merkir stefna bæði markmið og leiðir, ekki bara markmið eins og mikið af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar einkennist af.

Sjálfbærni er samansett úr þremur þáttum, náttúrufarslegum, félagslegum og efnahagslegum. Sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar, jafnvel fólk í ferðaþjónustu, gleyma þessu ansi oft og einblína bara á sjálfbærar náttúrunytjar í þessu samhengi.

Virðulegi forseti. Nú hefur nýr hæstv. ráðherra tekið við málaflokknum. Þá er mikilvægt að við höfum góð skil á hugtökum í umræðum um úrbætur í ferðaþjónustunni og endurskoðun á lögum um hana jafnframt því að móta langtímastefnu. Það síðastnefnda legg ég áherslu á í þessum sérstöku umræðum.

Sjálfbærni kallar á stýringu í auðlindanotkun, í ferðaþjónustu líkt og í landbúnaði eða sjávarútvegi. Stýringin snýst um a.m.k. þrenns konar viðbrögð:

Í fyrsta lagi þarf að ræða og ákvarða þolmörk staða, þolmörk landsvæða og að endingu þolmörk landsins og horfa til allra þátta sjálfbærni. Ákvörðun þolmarka er ferli sem opinberir aðilar, sérfræðingar og heimamenn koma að og er til reglulegrar endurskoðunar. Hingað til hefur nær algjörlega skort á umræðu um þolmörk og hugtakið er að mestu fjarri allri stefnumótun.

Í öðru lagi: Aðgangsstýring í þeim tilgangi að dempa álag og dreifa því fæst ekki nema að hluta með bílastæðagjöldum, gistináttagjöldum, aðgangseyri að stöðum eða þjóðgörðum, heldur ekki með nauðsynlegum komu- eða brottfarargjöldum. Ástæðan er einföld, gjöldin verða of lág miðað við háan ferðakostnað til landsins og innan lands. Gjaldtaka er þar með aðeins lítill þáttur aðgangsstýringar þegar á heildina er litið. Gjaldtaka hjálpar til við að lagfæra skemmdir, stýra umferð á vegum og inni á landsvæðum með stígagerð o.fl. og kosta úrbætur aðrar, en stýrir ekki fjölda ferðamanna eða hægir svo um munar á vexti í greininni. Aðgangsstýring felst fyrst og fremst í að framfylgja þolmörkunum sem ég ræddi með ákvörðun um ítölu gesta og með því að hafa nægan, menntaðan mannafla sem landverði af tvennum toga.

Í þriðja lagi: Stjórnun og samþætting margra þátta þarf að vera skilvirk. Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur. Henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka. Henni er stjórnað af fjórum uppteknum ráðherrum og hún mun bara starfa til ársins 2020. Og hvað tekur þá við? Það hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis á síðasta kjörtímabili og koma því svo á laggirnar, t.d. við stjórnarskipti. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila innan hennar og utan, hvort sem er ferðaþjónustufyrirtækja eða álitsgjafa. Gagnrýni kemur æ oftar fram meðal ferðamannanna sjálfra. Það verður því að koma þessum málum í viðunandi horf á skömmum tíma.

Ef ég segi hér og nú að hæfilegur fjöldi ferðamanna, hæfilegur í þágu langflestra, samfélagsins, fyrirtækja, stofnana og ferðamanna, sé 3–4 milljónir á ári væri það hrein ágiskun. Viljum við vinna þannig og treysta á óljósa sjálfstýringu og samkeppni? Viljum við áfram rekast á hindranir, vandamál og öfugþróun þegar stærsta atvinnugreinin er í húfi af því að við stundum ekki ábyrg vinnubrögð við náttúru- og samfélagsnytjar? Sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við landsmenn byggir varla á 8–10 milljónum ferðamanna á ári eða svo. Við höfum heyrt þá tölu, það er örugglega ekki ósk okkar allra.