146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Við erum öll sammála um að augljóst er að eitthvað þarf að gera. Það er auðvitað mjög mikilvægt, og við Framsóknarmenn erum svo sannarlega sammála málshefjanda í því að sjálfbærni þarf að byggja á þessum þremur undirliggjandi þáttum; umhverfi, félagslegum þáttum og efnahagslegum. Í því ljósi er líka rétt að muna að Ísland er stórt og þótt það séu rúmar 2 milljónir ferðamanna sem koma til landsins er þeim ákaflega misskipt um landið.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra. Nú kom það fram í ræðu hæstv. ráðherra, og hún var sammála málshefjanda, að það gætu verið staðir þar sem ekki er eingöngu hægt að stýra með gjaldtöku heldur ítölu. En hvernig á að stýra með gjaldtöku? Hvað hyggst ráðherrann gera í þeim efnum? Er verið að tala um mismunandi komugjöld eftir því hvort menn lenda á Egilsstöðum, Akureyri eða í Keflavík, á mismunandi tímum til að reyna að hvetja til þess að menn komi til landsins þegar færri eru? Er hugmyndin að beita bílastæðagjöldum og þá hvernig, hvaða skilgreiningar liggja þar til grundvallar? Það þarf líka að vera einhver tilgangur í því, þetta þarf að vera samhæft.

Hvenær kemur í raun og veru alvörustefnumótun, heildstæð, um það hvernig við tökum á móti 2 milljónum ferðamanna og hvernig við náum að nýta allt landið þannig að það verði þessi sjálfbærnigrundvöllur, líka efnahagslegur, félagslegur, á öðrum stöðum en við þekkjum í dag og við vitum að er umhverfislegur vandi á einstaka stað?

Það hefur margt breyst. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið með þennan málaflokk í tæp fjögur ár og það er því kannski kominn tími á að heyra hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim málum, greina vandann í heild.