146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:22]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka málshefjanda áhugaverðan vinkil á þolmörk náttúru og ferðaþjónustu. Þetta var áhugavert erindi sem hann hélt hér í upphafi. Ég er sammála honum að mörgu leyti. Mig langar í þessu örstutta innleggi að koma inn á vinkil varðandi þolmörk náttúrunnar. Fyrir utan þá skoðun mína að hér ríki ákveðið stjórnleysi í ferðaþjónustunni, flugfélögin stýra framboði og eftirspurn, sem hefur mikil áhrif á innviði okkar, húsnæðismarkað og margt fleira sem við náum einhvern veginn ekki tökum á, langar mig að koma inn á að við stöndum frammi fyrir svo mörgum mikilvægum spurningum á næstunni og þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir.

Mig langar að taka sem dæmi Þríhnjúkagíg sem er núna í skipulagi þar sem við þurfum að taka ákvörðun um það hvort við ætlum að grípa inn í og hleypa fleiri ferðamönnum að þeim gíg og hver sjónarmiðin eru. Mér þætti gaman að heyra frá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni hver skoðun hans á þeim sérstæða helli, hvort við ættum að hafa fyrirkomulagið eins og það er í dag og hleypa fáum að og halda hellinum algerlega í því standi sem hann er eða hvort við ættum að gera hlutina dálítið þannig að þetta verði nánast eins og næsta Bláa lón, það verði það mikill fjöldi sem fari að gígnum. Við stöndum frammi fyrir þeirri ákvörðun að þurfa þá að fara í það að búa til farveg ferðamanna að þessum gíg. Það er jafnvel eitthvað sem er í loftinu. Það væri áhugavert að heyra skoðun hans á því.