146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka frummælanda fyrir framtakið og hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna. Ég er ánægður með ýmislegt sem þar kom fram. Ég held að stóra vandamálið sé, eins og margir hafa komið inn á, að skort hefur algerlega á stefnumótun stjórnvalda í þessum málum. Ég held að leitun sé að atvinnugrein sem hefur kallað jafn sterkt eftir því að um hana verði mörkuð almennileg stefnumótun og er með ferðaþjónustuna. Mörgum spurningum þarf að svara í því. Hvaða framkvæmdir á að fara í á vegum hins opinbera hlutafélags Isavia þegar kemur að flugstöðinni? Hvar ætlum við að búa til aðstöðu til að fljúga svo mörgum inn til landsins? Hvernig ætlum við að stýra því? Ætlum við að gera það? Hvernig eigum við að haga þessum málum varðandi dreifingu, ef hægt er? Bæði hvað varðar tíma og eins svæði.

Hér hafa ýmsir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra komið inn á bílastæðagjöld sem er gott og vel. Ég minni þó á að bílastæðagjöld eru þjónustugjöld. Þau mega í raun ekki gera neitt nema standa undir þeim kostnaði sem hlýst af að veita þá þjónustu, í þessu tilfelli bílastæðin. Þannig að bílastæðagjöld eru ekki svar við auknum tekjum í ríkissjóð af ferðaþjónustunni. Og almennt hefur mér þótt umræðan vera þannig að við höfum verið að snúa henni á haus. Það er eins og við getum ekki framkvæmt neitt í ferðaþjónustunni öðruvísi en að vera búin að marka því sérstaka tekjustofna. Að merktar krónur hafi komið inn í ríkiskassann, næstum því krónu á móti krónu, áður en við erum tilbúin að hleypa þeim aftur út til að byggja upp svæði og svo tryggja landvörslu.

Ég held að við þurfum að fara að horfa á það að hver ferðamaður skilar í þjóðarbúið rúmlega 200 þús. kr. Það er skylda okkar að auka við landvörslu eins og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kom hér inn á, gleðilega, og byggja upp. Við eigum ekki að bíða eftir því að afmarka tekjustofnana heldur nýta þá fjármuni sem við höfum nú þegar.