146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki í fyrsta skipti á þessu þingi sem ferðaþjónusta er til umræðu í sérstakri umræðu. Það er alltaf litið á að það sem gert er í ferðaþjónustu á undanförnum árum sé sérstakt vandamál en ég lít nú á það sem verkefni. Ég held að engin atvinnugrein á Íslandi sé jafn sjálfsprottin og ferðaþjónusta. Það að kalla eftir opinberri afstöðu eða stefnumótun stjórnvalda held ég sé býsna erfitt vegna að þessi grein verður alltaf sjálfsprottin, í fyrsta lagi út frá þeim neytendum sem koma og það verður að takast á við það. Það er vissulega hægt að viðhalda sjálfbærni í þessari grein en við þurfum að vera við því búin, og það að bregðast alltaf við einhverri tekjuöflun — það verða engar tekjur til fyrir ríkissjóð af engu. Ferðaþjónustan skilar sennilega 80 milljörðum af svokölluðu skattspori, eins og það er nú hugsað. Virðisaukaskattstekjur af þessari útflutningsgrein eru sennilega um 30 milljarðar sem ella kæmu ekki ef um vöruútflutning væri að ræða. Það verður að horfa á þetta út frá því að farþegar koma hérna af fúsum og frjálsum vilja. Þeim verður ekki stýrt. Þeir geta hins vegar keypt sér þá sjálfsprottnu þjónustu sem er í boði og vissulega þarf að verðleggja hana. Árið 2001 var því spáð að ferðamenn á Íslandi yrðu u.þ.b. ein milljón árið 2016. Þá var reiknað með 8% aukningu, en í stað 8% aukningar varð 12% aukning, það skilaði af sér 1.800 þúsund ferðamönnum. Það er lítill vandi að skattleggja hér þá þjónustu, eins og t.d. gistináttaþjónustu, það er gjald sem fólk þekkir í öllum löndum.

Virðulegi forseti. Þetta umræðuform er mjög knappt. Tími minn er búinn. Ég hef lokið máli mínu.