146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég er ósammála hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni að ferðaþjónustan sé sjálfsprottin grein sem á ekki að lúta neinum, í raun engri stefnumótun. Í heimi sem verður sífellt einsleitari verður hið smáa og sérstaka dýrmætara og þar liggur nefnilega sérstaða okkar. Við eigum dæmi víða um heim þar sem metnaðarlaus massatúrismi sem hefur ekkert skeytt um staðhætti hefur breyst úr huggulegum draumi í martröð á fáum áratugum. Við getum í raun vaknað hvar sem er í heiminum og vitum ekkert hvar við erum. Við göngum niður og það er sami morgunmaturinn, sömu pálmatrén, sömu teppin, dyraverðirnir eru eins klæddir. Við förum út og þetta eru skyndibitakeðjur, þetta er algjörlega einkennalaust. Ef við værum ekki með farmiðann í vasanum vissum við í raun ekki hvar í heiminum við værum stödd.

Við höfum tækifæri ef við verðum ekki þessari flatneskju að bráð, ef við gefum sérstöðu okkar betri gaum og byggjum á henni. Þar þarf hið opinbera að koma fram með framkvæmdaáætlun innviða sem byggir á gæðum, varanleika og umhyggju fyrir náttúru og staðháttum. Við getum lært mikið af ýmsum þjóðum, ótrúlegt en satt, t.d. Norðmönnum sem hafa byggt upp mjög merkilegt ferðamannanet meðfram vesturströndinni sem byggir einmitt á þessum gæðum.

Þetta er kostnaðarsamt og það er auðvitað eðlilegt að ferðamennirnir greiði að einhverjum hluta þann kostnað. Við þurfum að ná sátt um tekjustofna og það þarf að ráðstafa peningum að einhverju leyti til sveitarfélaganna sem geta byggt upp þessa innviði og laðað til sín ferðamenn. Auðvitað þurfum við aðgangsstýringu á einstökum svæðum en það held ég að verði alltaf misjafnt og háð aðstæðum hverju sinni hvernig er að því staðið. En í guðanna bænum, við skulum byggja upp þennan atvinnuveg með langtímahagsmuni að leiðarljósi en ekki skammtímasjónarmið.