146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Tvær mínútur eru auðvitað allt of stuttur tími. Ég vona að ég tali ekki of hratt. Landsáætlun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra er auðvitað tiltölulega nýtt plagg. Þar er ábyrgðin að skýrast, hver ber ábyrgð á því að byggja upp innviði á ferðamannastöðum almennt. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er orðinn of flókinn. Ég er að láta vinna frumvarp sem ég hlakka til að koma með inn í þingið þar sem er breytt hlutverk þannig að allar framkvæmdir á svæðum í eigu ríkisins fari undir landsáætlunina. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er þá fyrir einstaklinga, sveitarfélög og minni framkvæmdir.

Við höfum frá árinu 2011 sett 2 milljarða í framkvæmdir, 3 milljarða samtals en 1 milljarður hefur ekki getað farið út. Þegar talað er um að ekkert hafi verið gert finnst mér það ekki rétt þó að ég geri ekki lítið úr öllu því sem þarf að gera. Mikil uppbygging hefur samt átt sér stað.

Það er að fara af stað vinna í fjármálaráðuneytinu um sérleyfi sem gengur út á að þeir sem gera út á okkar takmörkuðu auðlind greiði fyrir það gjald. Mér finnst það mjög gott. Það var það fyrsta sem ég nefndi þegar ég kom inn í mitt ráðuneyti. Það hakar í þau box að snúa að sjálfbærni og stýringu, að þeir sem gera út á takmarkaða auðlind greiði fyrir það. Þannig getum við líka tryggt almannaréttinn. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að halda í hann. Ég er hins vegar viss um að við getum fundið leiðir þar sem við náum þessum markmiðum á sama tíma og við sem viljum ganga inn á náttúruperlur getum gert það. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að menn greiði fyrir að leggja í bílastæði, kafa, fá leiðsögn um svæðið eða hvað svo sem það er.

Leiðarljósið verður að vera alveg skýrt, jákvæð upplifun ferðamanna, að tryggja náttúruverndina, gæðin á ímynd landsins. Við erum með skýra stefnumótun í vegvísunum og megum ekki gera lítið úr því. Þar er stór mynd þó að það vanti síðan langtímastefnuna sem við erum að reyna að vinna á sama tíma og við erum að taka á móti öllum þessum fjölda. Þess vegna erum við að elta skottið á okkur.

Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram að við höfum gert þetta af miklum sóma. Íslendingar hafa tekið á móti nánast 2 milljónum ferðamanna af miklum sóma. Það má ekki gera lítið úr því sem vel er gert þrátt fyrir að margt sé ógert.

Ég hef talað um dreifingu ferðamanna frá fyrsta degi, hversu mikilvægt það sé (Forseti hringir.) og að þetta sé sjálfsprottin og sjálfbær byggðaaðgerð og allt unnið með sveitarfélögunum.

Bílastæðagjöldin eru ekki eina sem ég hef nefnt. Það eru líka (Forseti hringir.) sérleyfin. Þetta eru mörg tól og ég vildi að ég gæti talað lengur. Ég bið einhvern um að koma með skýrslubeiðni.